Telur rökleiðslu Hæstaréttar ekki standast

Dómi Hæstiréttar í máli mannsins verður vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Dómi Hæstiréttar í máli mannsins verður vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Skattsvikadómi Hæstaréttar í máli manns sem áður hafði sætt háu álagi vegna vangoldinna skatta, verður áfrýjað til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þetta segir Ragnar H. Hall, lögfræðingur mannsins.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í september að heim­ilt væri að ákæra menn fyr­ir meiri hátt­ar skatta­laga­brot þó að þeir hafi áður sætt háu álagi ofan á van­goldna skatta. Hæstiréttur, skipaður sjö dómurum, staðfesti þá dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur frá því í mars í fyrra. En dómurinn hafði sakfellt og dæmt til þriggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar mann sem taldi ekki fram um 87 millj­ón­ir króna í fjár­magn­s­tekj­ur árin 2008 og 2009. Maðurinn var einnig dæmd­ur til að greiða tæp­lega 14 millj­ón­ir króna í sekt.

Ragnar segir skjólstæðing sinn ekki vera sáttan við niðurstöðu Hæstaréttar. „Hann hefur því ákveðið að bera undir Mannaréttindadómstólinn hvort að þarna hafi verið brotið gegn ákvæðum sáttmálans,“ segir hann.

Mál mannsins þykir að mörgu leyti sambærilegt máli þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar, en Mannréttindadómstóllinn úrskurðaði í maí á þessu ári að íslenska ríkið hefði brotið gegn þeim með því að dæma þá til skilorðsbundinnar fangelsisvistar þó þeim hefði áður verið gert að greiða sekt vegna þessara sömu brota.

„Það var búið að bíða mjög lengi eftir niðurstöðu í því máli og eftir að hún kom þá ákvað Hæstiréttur að sjö manna dómur skuli fjalla um þetta mál,“ segir Ragnar. Áður hafi verið ákveðið að þriggja manna dómur fjallaði um málið. „Þeir breyttu þeirri ákvörðun eftir að dómur Mannréttindadómstólsins féll og þá liggur í augum uppi að dómurinn hafi hugsað sér að taka sína lagaframkvæmd til skoðunar, hvort að hún eigi að standa óbreytt eða ekki.“

Hann segir dómarana sjö alla hafa sakfellt fólk í sambærilegum málum á undanförnum árum. „Þeir hafa sakfellt marga aðra með vísan í fordæmið í máli Jóns Ásgeirs,“ segir hann. „Ég gerði því kröfu um að þeir vikju sæti og að það kæmu aðrir menn til þess að móta þessa  lagaframkvæmd til frambúðar, en á það var ekki fallist.“

Ragnar segir dóminn að sínu mati  á skjön við þau ákvæði Mannréttindasáttmálans sem bannar að menn þurfi að fara í gegnum tvöfalda málsmeðferð og sæta refsingu á tveimur stöðum fyrir sama atvik. „Þetta er langur dómur, það er svolítið merkilegt að það þurfi 24-25 blaðsíður til að komast að þeirri niðurstöðu um að héraðsdómurinn skuli standa. Þarna er þó raunar líka heilmikil rökleiðsla um það hvers vegna þeir telji að dómurinn í máli Jóns Ásgeirs eigi ekki við og ég tel að hún bara fái ekki staðist,“ segir Ragnar

Áður hefur verið greint frá því að talið sé að dóm­ur­inn í máli mannsins kunni að reynast for­dæm­is­gef­andi og geti haft áhrif á fjöl­mörg mál sem héraðssak­sókn­ari hef­ur til rann­sókn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert