Jón Gnarr hjólar í Bjarta framtíð

Jón Gnarr á fundi Samfylkingarinnar.
Jón Gnarr á fundi Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Gnarr, sem gekk í Samfylkinguna fyrir helgi, vandar Bjartri framtíð ekki kveðjurnar í færslu sem hann ritar á Facebook-síðu sinni. Jón er fyrrverandi borgarstjóri og stofnandi Besta flokks­ins.

Jón segist vilja ítreka að hann sé ekki félagi í Bjartri framtíð og að hún hafi ekkert með hann að gera. „Ég óska öllu því góða fólki sem þar starfar brautargengis og vona að það beri gæfu til að uppræta þennan sjúkleika eða forða sér áður en það verður honum sjálft að bráð,“ skrifar Jón.

Hann hafi skynjað áhuga hjá fólki að fá sig aftur inn á svið stjórnmálanna eftir að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu um miðjan síðasta mánuð. „Björt framtíð var að hluta stofnuð af meðlimum Besta flokksins og hefur gefið sig út fyrir að reyna að halda anda hans á lofti,“ skrifar Jón og bætir við að hann hafi haft samband við Óttar Proppé og rætt við hann.

Vildi ekki stíga á neinar tær

Þar sagðist Jón ekki vilja stíga á neinar tær, heldur bara vera með. Varð það úr að Jón og eiginkona hans fóru á fund Bjartrar framtíðar þar sem hann tók til máls og viðraði hugmyndir sínar.

„Gamall félagi, sem hafði verið með okkur í Besta flokknum, tók líka til máls og sagðist vera uppfull af gremju yfir að sjá svona mikið af nýju fólki og gömul andlit. Hún var reið vegna þess að henni fannst þau öll hafa verið að erfiða svo mikið og án þess að fá neina hjálp frá okkur en nú þegar byrjað væri að ganga vel þá ætluðum við að teika velgengnina,“ skrifar Jón en þeim hjónum þóttu þessi ummæli mikið högg. 

Enginn mótmælti ummælunum

„Og það sem verra var, enginn annar stóð upp og mótmælti þessu,“ skrifar Jón en seinna sama kvöld ræddi hann við Björn Blöndal og Ilmi Kristjánsdóttur og tjáði þeim að honum hefði snúist hugur með að starfa innan flokksins í aðdraganda kosninga.

Hann hafi fengið ýmis tilboð frá öðrum flokkum en ákvað að ganga til liðs við Samfylkinguna fyrir tilstilli vinar síns, dr. Gunna. Hann þiggi laun fyrir vinnu sína og bendir á að eina launaða vinna hans hafi verið dagskrárgerðarstarf á Rás 2 en auk þess hefur hann nýlokið bókaskrifum. Jón veltir því upp hvernig fjölmiðlar hafi komist að því að hann fái greitt fyrir vinnu sína hjá Samfylkingunni en hann hafi aðeins sagt Óttari Proppé frá því.

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Ekki skemmtileg kveðja

Í framhaldi af þessum fregnum finnst Jóni viðbrögð framafólks innan Bjartrar framtíðar sérkennileg. „Fyrst kemur Björt Ólafsdóttir starfandi umhverfis- og auðlindaráðherra í viðtal við Vísi. Viðtalið er einkennilega yfirlætislegt. Ráðherrann gefur það í skyn að ég hafi farið fram á einhverjar greiðslur til mín og þar sem þau hafi ekki geta orðið við því hafi ég farið annað. Þetta er bara rangt. Ég fór aldrei fram á neinar greiðslur,“ skrifar Jón og bætir við að greiðslur hafi ekki verið til umræðu.

„Ráðherrann sér ástæðu til að nefna sérstaklega atvinnustöðu mína og það sé ljóst að ég sé að leita mér að vinnu, ég sé ekki merkilegur pappír og farið hafi fé betra og enginn sem sakni mín. Mér finnst þetta ekki skemmtileg kveðja frá manneskju sem ég hef virt mikils og hef stutt á margan hátt í sinni pólitísku göngu og er sjálf í nokkuð vel launuðu starfi sem hún væri örugglega ekki í ef ég hefði aldrei verið til.“

Guðlaug Kristjánsdóttir.
Guðlaug Kristjánsdóttir.

Heimskulegt, dónalegt og ólöglegt

Daginn eftir áðurnefnt viðtal við Björt birti Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, mynd af undirskrift Jóns við meðmælendalista flokksins. „Ég hef upplistað ýmislegt virðingarleysi í afskiptum mínum af stjórnmálum en þetta er líklega það sjoppulegasta sem ég hef orðið fyrir. Þetta er ekki bara heimskulegt, dónalegt og ómaklegt heldur líklega ólöglegt líka,“ skrifar Jón.

Enginn hafi beðið hann afsökunar á þessu en Jón kveðst ekki hafa gert þessu fólki neitt og skuldi því ekki neitt. „Ég hef gefið þeim mikið en þau hafa aldrei gefið mér neitt, nema þennan skít núna. Ég prísa mig nú sælan að hafa ekki gengið í þennan söfnuð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert