Ekki rétt að tengja málið við minningu Birnu

Birna Brjánsdóttir.
Birna Brjánsdóttir.

Það er ekki rétt að tengja þá hræðilegu atburði sem áttu sér stað fyrir Birnu Brjánsdóttur við minninguna um hana. Hún var saklaus manneskja sem gerði ekkert ljótt og hafði ekki meitt nein, heldur var á röngum stað á röngum tíma og mætir ömurlegum örlögum. Þetta sagði Silla Hreinsdóttir, móðir Birnu í Kastljósi í kvöld, en hún sagði að það væri sér mikilvægt mál að halda minningu dóttur sinnar lifandi. Þá vilji hún ekki að málið sé tengt nafni Birnu.

Sagði Silla að auðvelt væri að eyðileggja minningu fólks þegar það væri fallið frá og að það gæti verið mjög særandi að heyra til dæmis lýsingar úr aðalmeðferð málsins sem tengjast dóttur hennar. Sagði Silla að hún væri enn í áfalli vegna málsins og að um síendurtekið áfall væri að ræða, enda hafi það tekið langan tíma í kerfinu. Sagði hún að í slíku ástandi væru meiri líkur á að tengsl hennar við minningu Birnu myndu rofna og að það væri erfitt fyrir sig.

Sagði hún þann stuðning sem hafi komið frá almenningi í janúar sem og síðar þegar málið var tekið fyrir í héraðsdómi hafi verið henni mjög mikilvægur. Sagðist hún hafa fundið það síðar hvað sá stuðningur hafi gefið henni mikið.

Í viðtalinu rifjaði Silla einnig upp hvernig Birna hefði verið og lýsti hún henni sem skemmtilegri, uppátækjasamri en á sama tíma ákveðinni manneskju sem hafi staðið fast á sínu. Þá hafi hún hugsað vel um aðra, lifað sig inn í líf annarra og átt auðvelt með að kynnast fólki.

Hægt er að sjá viðtalið í heild á vef RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert