Fleiri hjóli og velji bíllaust líf

„Í miðborginni er maður fljótari að fara á hjóli en …
„Í miðborginni er maður fljótari að fara á hjóli en bíl,“ segir Þráinn, hér á hjólinu sem starfsfólk Landslags notar til skemmri ferða. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Umferðarteppur á álagstímum á höfuðborgarsvæðinu lagast ekkert þótt farið yrði í stórkarlalegar framkvæmdir, eins og að breikka götur og byggja mislæg gatnamót. Reyndar er eftirtektarvert hve lengi margir bílstjórar eru að hökta af stað, þegar græna ljósið á gatnamótum kviknar. Margir laumast á netið í símanum meðan rauða ljósið logar og valda þannig töfum.“

Þetta segir Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf. í Reykjavík. Hann er einn þeirra sem ferðast talsvert á reiðhjóli og telur hann það í öllu falli góðan kost, sem eigi að efla eins og tök leyfa. Í starfi sínu sem arkitekt lands og leiða hefur hann einnig komið með ýmsar hugmyndir í samgöngumálum sem síðan hafa verið raungerðar. Útgangspunkturinn þar er einfaldlega sá að aðstaða skapar áhuga. Séu til dæmis lagðir hjólastígar fjölgi hjólreiðafólkinu.

Aðstaða skapar áhuga

„Á rúmlega 20 árum er gert ráð fyrir að íbúum á svæðinu fjölgi um allt að 70 þúsund,“ segir Þráinn. „Hvorki skipulag, landrými né gatnakerfi ræður við aukna umferð einkabíla sem svarar til þessa fólksfjölda. Betri almenningssamgöngur, umferðarstýring með gjaldheimtu á bílastæðum og að skapa betri aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi með markvissum stígaframkvæmdum í skjólgóðu og vistlegu umhverfi eru nauðsynlegar aðgerðir til að búa í haginn fyrir framtíðina.“

Nærumhverfi okkar mótast á marga lund af þeim ramma sem skipulag svæða setur. Hvar á íbúðabyggð að vera, verslanir og þjónusta, aðgengi að almenningssamgöngum, græn svæði og svo framvegis? Taka þarf tillit til margra þátta og álit íbúa skiptir jafnan miklu. Þétting byggðar með góðri nærþjónustu og aðgerðir til að draga úr einkabílaumferð eru áberandi atriði í þeirri skipulagsstefnu sem nú er rekin í Reykjavík. Sú stefna er um margt samtóna því sem gerist víða um heim.

Lestir silast áfram

„Í miðborginni er maður fljótari að fara á hjóli en …
„Í miðborginni er maður fljótari að fara á hjóli en bíl,“ segir Þráinn, hér á hjólinu sem starfsfólk Landslags notar til skemmri ferða. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson


Flestir þekkja þær löngu bílalestir sem eru á stofnæðum á höfuðborgarsvæðinu frá því nokkru fyrir klukkan átta á morgnana og næsta klukkutímann eftir það. Lestirnar silast áfram og það er áberandi hve oft er bara einn í bíl. Erindi fólks eru eins ólík og það er margt og margir eru á leiðinni í háskólana, en við þá eru víðlend svæði sem taka mörg hundruð bíla í stæði. Þar er nærtækt að gera breytingar, að sögn Þráins.

„Fyrir námsfólk ætti að blasa við að taka strætó, enda séu fargjöldin lág og ferðir tíðar. Strætó þarf einfaldlega að vera besti valkosturinn. Hann þarf því að hafa forgang í umferðinni og vera fljótari en hinir. Til þess að hafa að minnsta kosti áhrif á einkabílamenninguna væri einfaldast að hafa gjaldskyldu á bílastæðum við háskólana og framhaldsskólana í borginni, og sambærilega staði, að minnsta kosti í eða við miðborgina. Slíkt er gert víða erlendis. Örflögur í bílum svara skynjara eða gjaldmæli þegar ekið er inn í miðborg Þrándheims í Noregi og þannig er umferðinni stýrt. Útkoman er því friðsæl borg og manneskjuleg, að mínu mati,“ segir Þráinn sem telur þróunina verða í þessa átt á Íslandi.

Gera umhverfið miklu betra

Með þéttari byggð og að hvert hverfi sé sjálfbært með tilliti til nauðsynlegrar þjónustu og betri almenningssamgangna, svo sem boðaðrar Borgarlínu, hefur fólk væntanlega minni not en nú fyrir einkabílinn, að mati Þráins

„Fólk veigrar sér mjög við að sjá hvað einkabíllinn vegur þungt í heimilisbókhaldi og notar bílinn sem yfirhöfn. Með nýjum kynslóðum sem hafa annað gildismat en nú er ráðandi kann þetta að breytast svo bíllaus lífstíll verði val fleiri,“ segir Þráinn og heldur áfram. „Við eigum að vera sammála um að draga úr umferð einkabíla vegna mengunar og umhverfissjónarmiða. Þar má fara ýmsar leiðir, en reynslan af samgöngustyrkjum sem mörg fyrirtæki greiða starfsfólki sínu er góð. Þá skuldbindur fólk sig til að fara meirihluta ferða sinna til vinnu með strætó, hjóli eða gangandi og þetta höfum við hér á Landslagi gert – og kemur vel út. Við erum líka með reiðhjól sem starfsfólk notar eins og tök leyfa, til skemmri erinda út í bæ. Í miðborginni er maður fljótari að fara á hjóli en bíl, fyrir svo utan að á miðjum vinnudegi fær skrifstofufólkið stutta útiveru í umhverfi þar sem minnka má mengun og gera umhverfið svo miklu betra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert