Kjaraviðræður flugmanna ganga vel

Kjaraviðræður flugmanna og Icelandair var vísað til ríkisáttasemjara.
Kjaraviðræður flugmanna og Icelandair var vísað til ríkisáttasemjara. mbl.is/Sigurður Bogi

Öðrum fundi í kjaradeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair lauk hjá ríkissáttasemjara í dag. „Þetta var góður fundur, gekk vel. Við erum að vinna og kasta á milli okkar hugmyndum þannig að báðir aðilar eru með heimavinnu og síðan fundum við aftur á fimmtudaginn í næstu viku,“ segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður samninganefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna í samtali við mbl.is

Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara 26. september og var fyrsti sáttafundurinn haldinn 2. október. „Það er fullt af málum sem þarf að ræða sem eru tæknilega flókin í útfærslu. Það er verið að ræða þau og það er í raun staðan í dag,“ segir Jón Þór. 

Aðspurður um hvaða atriði þyrfti helst að ræða sagðist Jón Þór ekki geta tjáð sig um þau að svo stöddu. „Vinnan felst fyrst og fremst í því að finna atriði í kjarasamningi sem eru win-win fyrir bæði flugmenn og fyrirtækin. Þetta er sameiginleg vinna sem við stöndum í núna."

Alls eru á milli 800 til 900 virkir félagar í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna. Þar af störfuðu 530 hjá Icelandair í sumar.

Flugvirkjar hafa fundað tvívegis

Flugvirkjar hjá Icelandair hafa tvívegis fundað hjá ríkissáttasemjara. Næsti fundur hefur ekki verið boðaður en sá síðasti var í síðustu viku.

Að sögn Óskars Einarssonar, formanns Flugvirkjafélags Íslands, hafa menn verið að ræða saman og tjá kröfur hvors annars.

Samningum flugvirkja hjá öðrum fyrirtækjum og stofnunum sem eru lausir hefur ekki verið vísað til ríkissáttasemjara.

Flugvirkjar að störfum.
Flugvirkjar að störfum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert