Nú standa öll spjót á íslenskunni

Dröfn stóð fyrir bókahátíðarviku í Seljaskóla og nemendur unglingastigs fengu …
Dröfn stóð fyrir bókahátíðarviku í Seljaskóla og nemendur unglingastigs fengu að mála skápa sína með bókarkjölum. . mbl.is/Kristinn Magnússon

„Til hvers er þjóðarsátt um læsi, ef við leggjum ekkert upp úr því að styrkja útgáfu barna- og unglingabóka? Það eru settir miklir peningar í læsisátök, en börn munu ekki lesa meira þótt gefnir séu út rándýrir bæklingar um nauðsyn lesturs,“ segir Dröfn Vilhjálmsdóttir sem er með ákveðnar skoðanir á því hvað þurfi að gera. Hún segir snobb og barnabækur ekki eiga samleið.

Kannski eru einhverjir sem trúa því ekki, en íslenskir krakkar tala orðið mjög mikið saman á ensku sín á milli. Fólk áttar sig ekki á því hvað þetta hefur gerst hratt, ég finn mun á þessu hjá nemendum mínum, ekki aðeins frá því í fyrra, heldur líka frá einum mánuði til annars. Íslensk börn í leikskólum eru líka farin að tala saman á ensku og þau svara oft á ensku þegar leikskólakennarar spyrja þau að einhverju á íslensku. Þetta er staðreynd úr raunheimum. Við lifum í gjörbreyttum veruleika og nú standa öll spjót á íslenskunni. Öll afþreying sem íslensk börn og unglingar sækja í, hún er meira og minna á ensku og hún er fljótsótt í síma eða tölvur. Það er ögurstund núna fyrir íslenskuna; ef við bregðumst ekki við verður enginn hér sem talar íslensku eftir miklu færri ár en okkur órar fyrir,“ segir Dröfn Vilhjálmsdóttir, bókasafnsfræðingur á bókasafni Seljaskóla í Reykjavík, en erindi sem hún flutti á ráðstefnu um barnabækur nýlega vakti mikla athygli. Þar sagði hún svarið í baráttunni fyrir íslenskri tungu liggja í stuðningi við útgáfu íslenskra barna- og unglingabóka. Og í því að efla skólasöfnin.

Líður eins og búið sé að höggva af mér hendurnar

Galdur á sér stað þegar barn sökkvir sér í góða …
Galdur á sér stað þegar barn sökkvir sér í góða bók og skapar sjálft myndir í huganum. Orðaforði eykst og tök á tungumálinu eflast. mbl.is/Ómar Óskarsson


„Til hvers er þjóðarsátt um læsi, ef við leggjum ekkert upp úr því að styrkja útgáfu barna- og unglingabóka? Það eru settir miklir peningar í læsisátök, en börn munu ekki lesa meira þótt gefnir séu út rándýrir bæklingar um nauðsyn lesturs,“ segir Dröfn og bætir við að gáttin til að ná til barnanna í þessum efnum sé í gegnum bókasöfnin innan skólanna.

„Níutíu prósent þess sem krakkar í grunnskólum lesa í heimalestri eru bækur sem þau sækja sér innan skólans, á skólasöfnin. Þetta segir okkur allt um það hversu miklu það skiptir að til sé nóg af bókum á skólasöfnum og að úrvalið sé sem mest, krakkar hafa ólíkan smekk á bókum rétt eins og við fullorðna fólkið.“

Afþreying nútímabarna er fljótsótt í snjallsíma og flest er þar …
Afþreying nútímabarna er fljótsótt í snjallsíma og flest er þar á enskri tungu sem þau lesa eða hlusta á. Bókin keppir við þessa afþreyingu. ThinkstockPhotos


Hún segir þá staðreynd að allt of lítið sé gefið út á íslensku af barna- og unglingabókum, bæði frumsömdum og þýddum, birtast í því að krakkarnir séu strax í janúar búnir að lesa þær fáu bækur sem koma út um jólin.

„Þegar þau hungrar í meira af nýjum bókum, þá eru þær ekki til. Og þau nenna ekki að bíða til næstu jóla eftir nýjum bókum. Það var eins og himnasending þegar bókin Gestir utan úr geimnum, eftir Ævar vísindamann, kom út í vor, krakkarnir eru rosalega spennt fyrir öllu sem frá honum kemur. Auðvitað á að gefa út barna- og unglingabækur allan ársins hring, því börn þurfa sífellt að fá nýtt og ferskt lesefni, ef viðhalda á áhuganum. Mér líður eins og það sé búið að höggva af mér hendurnar þegar ég þarf að segja nei þegar þau koma og spyrja spennt: „Áttu einhverja nýja bók?“

Vilja ekki leiðinlegar bækur

Góðar barnabækur eru gull og gersemi. Myndir skipta líka máli.
Góðar barnabækur eru gull og gersemi. Myndir skipta líka máli. mbl.is/Kristinn Ingvarsson


Dröfn segir að þau sem starfa á skólasöfnum undrist hvers vegna ekki sé sett króna í að efla skólasöfnin af þeim háu upphæðum sem settar eru í læsisátök á landsvísu. „Á skólasöfnum er okkur ætlað að skaffa öllum börnum landsins á grunnskólaaldri lesefni. Hvers vegna eru þá enn til skólasöfn sem eru svelt og hafa ekki fé til að kaupa bækur? Hvernig má það vera að ekki sé ákveðin upphæð eyrnamerkt bókakaupum á söfnin? Þetta þarf að laga,“ segir Dröfn og tekur fram að vel sé búið að bókasafninu í Seljaskóla þar sem hún starfar, stjórnendur hafi skilning á mikilvægi þess.

Dröfn segir svelti skólasafna aðeins eina hlið vandans, hin hliðin sé að íslenska rithöfunda og þýðendur skorti líka peninga til að skrifa barnabækur og þýða þær. „Fyrir vikið eru til dæmis allt of oft aðeins tvær bækur af þremur í seríu þýddar, og þá biðja krakkarnir um þessa þriðju á ensku, þau vilja auðvitað fá að vita hvernig sagan endar,“ segir Dröfn og bætir við að nauðsynlegt sé að gefa út það sem krakkarnir vilja lesa. „Kiddi klaufi er ein af langvinsælustu barnabókunum núna og þótt þær séu ekki neinar heimsbókmenntir er það allt í lagi, því börn þurfa að fara í gegnum ákveðin stig í lestri til að verða þjálfaðir lesarar. Snobb og barnabækur eiga ekki samleið, börn nenna ekki að lesa leiðinlegar bækur sem ætlaðar eru til að vekja aðdáun fullorðinna.“

Örþjóðir þurfa að hlúa að

Emil Örn Gunnarsson hlaut þann titil 2008 í Reykjanesbæ. Dröfn …
Emil Örn Gunnarsson hlaut þann titil 2008 í Reykjanesbæ. Dröfn segir að lestrarhestar bóka séu í útrýmingarhættu. mbl.is/Svanhildur Eiríksdóttir


Dröfn vill að yndislestur verði settur á stundaskrá í skólum og börn fái frið til að lesa. „Foreldrar og kennarar verða líka að vera lestrarfyrirmyndir. Við berum öll ábyrgð og við þurfum öll að standa saman í þessu. Við verðum að hætta að setja þennan stein í götu barnanna okkar: Að gefa ekki út nógu mikið af bókum á íslensku fyrir þau. Í samanburði við hinar norrænu þjóðirnar er Ísland afar aftarlega á merinni þegar kemur að útgáfu á barna- og unglingabókum. Norðmenn skilgreina sig sem örþjóð með eigið tungumál, þeir eru fimm milljónir. Þeir eru með sérstaka aðferð til að vernda og viðhalda sinni tungu, en ákveðið menningarráð kaupir 1.500 eintök af hverri barna- og unglingabók sem kemur út á norskri tungu og dreifir til allra bókasafna á landinu. Þetta er hvatning fyrir forlög og höfunda og mikill fengur fyrir söfnin. En fyrst og fremst er þetta fengur fyrir börn og unglinga,“ segir Dröfn og bætir við að það sé lífsnauðyn fyrir íslenska tungu að afnema virðisaukaskatt af bókum. „Við sem þjóð eigum að ákveða að við ætlum að tryggja útgáfu barna- og unglingabóka á íslensku af því bækur eru tæki fyrir börnin okkar til að eflast í móðurmálinu og til að búa til framtíðarlesendur. Við verðum líka að stofna sjóð sem höfundar barna- og unglingabóka geta sótt í til að skrifa bækur fyrir börnin okkar og þýða bækur fyrir þau. Það er ekki nóg að það sé í orði að efla eigi læsi og lestur og hlúa að tungunni. Það verður líka að vera á borði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert