Segir hækkanirnar núllaðar út

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði í ávarpi við setningu þings Starfsgreinasambandsins, að stjórnvöld hefðu núllað út hækkun lægstu launa með lækkun bóta. Vísaði hann þar til skýrslu hagsdeildar ASÍ um þróun skatta og fjölskyldubóta.

Hann benti á að hlutfall lægstu launa af meðallaunum sé hvergi innan OECD hærra en á Íslandi. „Nánast á sama tíma hafa stjórnvöld rýrt verðgildi bæði skattleysismarka og barna- og húsnæðisbóta með þeim hætti að þessi sókn okkar um betri lífskjör fyrir þá tekjulægri hefur verið nettuð út með hærri skattbyrði og lægri bótum.“

Í ræðu sinni lagði Gylfi meðal annars áherslu á hugtakið stöðugleika og talaði um að jafnvægi yrði að vera á milli efnahagslegs og félagslegs stöðugleika. Hlúa yrði að báðum þáttum og setja það „sem fyrirvara við frekari umræðu og þróun á nýju samningamódeli“ á Íslandi.

Hann sagði að velferðarmálin yrði að reisa á grundvelli norrænu samfélagsgerðarinnar. ASÍ hafi þegar hafið kynningu á „samfélagssáttmála um félagslegan stöðugleika“. Þar sé áherslan á öflugt heilbrigðiskerfi, öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum og að allir búi við örugga afkomu og aðstæður. „Vinnumarkaðurinn byggi á ábyrgum stoðum og traustri velferð og að tekjuöflun hins opinbera byggi á réttlátu skattkerfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert