Betur fór en á horfðist

Bílar frá öllum stöðvum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu mættu á svæðið.
Bílar frá öllum stöðvum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu mættu á svæðið. mbl.is/Golli

Birgir Finnsson, varaslökkviliðsstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, sagði við blaðamann mbl.is á staðnum að farið hafi betur en á horfðist þegar eldur kviknaði í Hótel Natura í dag. Það kviknaði í loftræstistokk ofan á hótelinu og segir Birgir að enginn reykur hafi farið inn á hótelið.

Þrátt fyrir það var hótelið rýmt og gestir fóru í fundarherbergi í hliðarhúsum hótelsins. Segir Birgir að reykurinn hafi verið svona mikill þar sem tjörupappi hafi verið inn í loftræstistokknum. Þetta hafi því litið verr út og virst meiri eldur en raunin var.

Enn eru slökkviliðsmenn á þaki hótelsins til að ganga úr …
Enn eru slökkviliðsmenn á þaki hótelsins til að ganga úr skugga um að búið sé að slökkva í öllum glæðum. mbl.is/Golli

Enn eru þrír slökkviliðsmenn á þaki hússins og eru þeir þar til að fullvissa sig um að búið sé að slökkva allar glóðir. Samkvæmt blaðamanni mbl.is má sjá nokkra ösku og ummerki brunans á þeirri hlið þaksins sem vísar út að flugvellinum.

Uppfært kl 16:55:

Samkvæmt tilkynningu frá slökkviliðinu nú rétt í þessu er búið að slökkva allan eld í hótelinu. Slökkviliðsmenn verða þó áfram á vakt til að tryggja vettvang.

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert