Launamunur kynjanna í sögulegu lágmarki hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar

Kynbundinn launamunur hefur aukist hjá SFR á sama tíma
Kynbundinn launamunur hefur aukist hjá SFR á sama tíma mbl.is/Ómar Óskarsson

Kynbundinn launamunur hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar hefur lækkað jafnt og þétt siðastliðin ár og hefur farið frá því að vera tæp 9% árið 2013 niður í það að vera nú 4% á félagið í heild en þegar félagsmenn sem starfa hjá Reykjavíkurborg eru teknir út þá mælist kynbundinn launamunur þar 1.3%. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu SFR stéttarfélags og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. 

Þrátt fyrir að kynbundinn launamunur hafi minnkað hjá félgöum í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar hefur hann aukist hjá félagsmönnum SFR sem starfa hjá ríki og sjálfseignarstofnunum að því er fram kemur í tilkynningunni. Niðurstöður nýrrar launakönnunar félaganna sýna að hann er nú 13% hjá félögum í SFR þegar tekið hefur verið tillit til þeirra þátta sem áhrif hafa á laun sem eru í þessari rannsókn vinnutími, vaktavinna, mannaforráð og fleira. Lægstur var kynbundinn launamunur árið 2013 eða 7% og hafði munurinn þá lækkað nokkuð hratt frá hruni að því er fram kemur í tilkynningunni. Nú hefur hann hins vegar aukist aftur og er orðinn sambærilegur því sem hann var fyrir hrun. 

Mikill munur er á aukagreiðslum og hlunnindum milli kynja samkvæmt rannsókninni, en hann er meiri hjá SFR en Starfsmannafélagi Reykajvíkurborgar. Fleiri karlar en konur fá slíkar greiðslur en í tilkynningunni segir að niðurstöðurnar sýni svart á hvítu að ástæður fyrir kynbundnum launamun megi finna að stórum hluta á launasetningu innan stofnananna sjálfra. Þá virðist munurinn fyrst og fremst vera á borði stjórnenda og kemur meðal annars fram í hærri aukagreiðslum til karla en kvenna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert