Óskarsverðlaun eru aðhald

Hingað koma gestir sem vita hvað þeir vilja, segir Rakel …
Hingað koma gestir sem vita hvað þeir vilja, segir Rakel Ármannsdóttir, aðstoðarhótelstjóri á Hótel Borg. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Allir innan ferðaþjónustunnar horfa til þess að komast á hinn eftirsótta lista tilnefninga. Þetta eru nokkurs konar Óskarsverðlaun greinarinnar og eru að því leyti mikilvægt viðmið sem skapar aðhald,“ segir Rakel Ármannsdóttir, aðstoðarhótelstjóri á Hótel Borg.

Á dögunum fékk Hótel Borg þriðja árið í röð viðurkenningu sem „leiðandi hótel á Íslandi“ frá World Travel Awards, sem á heimsvísu eru ein eftirsóttustu fagverðlaun ferðaþjónustunnar. Viðurkenningar World Travel Awards, sem eru í mörgum flokkum og hafa verið veittar frá 1993, þykja góður vitnisburður um fagmennsku og að allt sé til fyrirmyndar.

Ritz í París og d'Angleterre

Í vali World Travel Awards koma til uppgjörs bæði dómar og stigagjöf almennra ferðamanna og ákveðinnar dómnefndar. Þannig fékk Hótel Borg þá nafnbót að vera leiðandi hótel á Íslandi árið 2012 og nú samfellt frá árinu 2015. Frá 2004 hafa Radisson SAS Hótel Saga og Radisson Blu 1919 einnig fengið viðurkenninguna, það síðarnefnda alls sjö sinnum. Önnur leiðandi hótel í heiminum í ár, samkvæmt þessum sama lista, eru heldur ekki af verri endanum, svo sem Ritz í París, Hilton í Kaíró í Egyptalandi, Radisson Blue Royal og hið fræga Hotel d'Angleterre í Kaupmannahöfn og The Plaza í New York. Mætti svo lengi áfram telja.

„Hótel Borg hefur frá opnun verið tengt við glæsileika og gæði. Það eru forréttindi að fá að vera partur af mikilvægum viðburðum í lífi fólks en við fáum oft gesti til okkar sem deila með okkur sínum Borgar-minningum eins og aðventukaffi með ömmu og afa, dansleikjum í Gyllta salnum, glæsilegu offiserunum í bandaríska hernum, brúðkaupum, bónorðum og fleiru. Það eru ekki bara Íslendingar sem eiga tengingu við Hótel Borg heldur höfum við einnig fengið erlenda gesti til okkar sem biðja um að sjá Gyllta salinn þar sem foreldrar þeirra kynntust.“

Upplifun gesta sé góð

Hótel Borg var reist á vegum Jóhannesar Jósefssonar glímukappa og tekið í notkun fyrir Alþingishátíðina árið 1930. Bygginguna teiknaði Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, árið 1917 – og spannar saga hótelsins því heila öld. Rekstur hótelsins er nú á vegum Keahótela, sem eiga rætur sínar að rekja til Akureyrar. „Ég hef unnið á flestum af átta hótelum fyrirtækisins, en Borgin hefur algjöra sérstöðu. Hingað koma oft sterkefnaðir einstaklingar, fólk sem veit hvað það vill og gerir kröfur. Við leggjum mikla áherslu á að upplifun gesta okkar sé góð. Þessi verðlaun eru því mikil viðurkenning og hvatning fyrir okkur á Hótel Borg,“ segir Rakel.

Bæði lúxus og upplifunin

Þyrla Norðurflugs tyllti sér á tindinn.
Þyrla Norðurflugs tyllti sér á tindinn.


Viðurkenningar World Travel Awards til fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi – eins og öðrum löndum – eru í nokkrum flokkum. Hótel ION að Nesjavöllum þykir leiðandi lúxushótel hvar það stendur í stórbrotinni náttúru við Hengilinn. Radisson Blu Saga skorar hæst sem hótel fólks í viðskiptaerindum og sú umgjörð í náttúru og umhverfi sem Hótel Rangá er í þar eystra gerir það að leiðandi hóteli, sé horft til staðhátta.

Hertz er, samkvæmt mati World Travel Awards, leiðandi bílaleiga og Iceland Travel er ferðaskrifstofa sem helst mótar starfshætti á sínu sviði. Þá þykja ferðir með þyrlum Norðurflugs vera mikil upplifun, en þar er hægt að komast í lengri sem skemmri leiðangra þar sem flogið er yfir stórbrotna staði og fallega náttúru.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert