Rætt um öryggi slökkviliðsmanna

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn geta átt von á hinu versta þegarþeir …
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn geta átt von á hinu versta þegarþeir mæta á vettvang. Hér er verið að slökkva eld sem kom upp í strætó. Ljósmynd/Helgi Finnbogason

„Það er fjárskortur í starfsgreinum okkar slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Það kemur fram í því að endurmenntun er stopul og víða er tækjabúnaður orðinn gamall og úr sér genginn, sérstaklega hjá slökkviliðum þó ekki sé það algilt,“ segir Jón Pétursson, formaður fagdeildar slökkviliðsmanna. Hann vinnur að undirbúningi námstefnu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sem ætlað er að bæta að einhverju leyti úr.

Námstefnan, sem ber heitið „Á vakt fyrir Ísland“, hefst á morgun, föstudag, og stendur fram á laugardag í Icelandair Hotel Reykjavík Natura. Áherslan er á störf slökkviliðsmanna fyrri daginn en sjúkraflutninga seinni daginn. Á laugardeginum verður jafnframt sýning og æfing í viðbrögðum slökkviliðsmanna við hryðjuverkum, í Sunnulækjarskóla á Selfossi, og í framhaldinu fræðsludagskrá í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Fyrirlesarar á námstefnunni koma frá Noregi, auk íslenskra sérfræðinga. Öryggismál slökkviliðsmanna eru ofarlega á baugi á föstudeginum. Meðal annars verður fjallað um slökkviliðsmenn og hryðjuverk.

Spurningar vakna

„Við getum ekki horft á það sem er að gerast í heiminum með blinda auganu og látið eins og við sleppum alltaf. Við slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn höfum það sem reglu að fara ekki inn á ótryggan vettvang fyrr en lögreglan er mætt til þess að vernda okkur. Í því sambandi koma upp ýmsar spurningar. Megum við bíða, þegar hryðjuverk er framið, eða gera eitthvað til að tefja fyrir hryðjuverkamanninum? Við erum orðnir svolítið á eftir í þessari umræðu og viljum sækja okkur aukna þekkingu,“ segir Jón Pétursson.

Harmleikurinn sem varð í brunanum í Grenfell-háhýsinu í London er mönnum enn ofarlega í huga og verður fjallað sérstaklega um það hvort íslenskir slökkviliðsmenn gætu mætt slíkum ógnunum í starfi sínu. Jón kveðst ekki búast við að svo sé. „Vonandi koma fram staðreyndir um það hvernig málum er háttað með slíkar klæðningar hér og hvort við getum átt von á einhverju líku því sem gerðist í London,“ segir Jón. helgi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert