„Þetta er svo mikið tækifæri“

Guðný Hrund Karlsdóttir er sveitarstjóri Húnaþings vestra.
Guðný Hrund Karlsdóttir er sveitarstjóri Húnaþings vestra. Ljósmynd/Aðsent

„Þetta verður feikilega skemmtilegt. Við erum ofboðslega spennt,“ segir Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, í samtali við mbl.is. Körfuknattleiksliðið Kormákur, sem spilar í þriðju deild, fær á laugardaginn Íslandsmeistara KR í heimsókn í 32-liða úrslitum bikarkeppni KKÍ.

Með leiknum verður nýtt gólf í íþróttamiðstöðinni á Hvammstanga tekið í notkun en að því hefur verið unnið að undanförnu. Guðný Hrund segir að heimamenn séu mjög spenntir fyrir komu KR-inga. „Og ekki síst þá virðingu sem þeir virðast ætla að sýna okkur,“ segir Guðný Hrund, sem er ánægð með viðmót KR-inga. Þeir muni gefa af sér til yngri kynslóðarinnar.

Hún segir að svona leikur skipti miklu máli fyrir samfélagið og að hann verði lyftistöng fyrir íþróttina í sveitarfélaginu. „Þetta er svo mikið tækifæri fyrir körfuboltann – að fá svona lið á svæðið og hitta krakkana sem eru að æfa,“ segir Guðný.

Áður en flautað verður til leiks verður „ýmislegt gómsætt fyrir augu og eyru, bæði fyrir unga og aldna í tilefni dagsins,“ segir á heimasíðu Húnaþings vestra. Gleðin hefst klukkan 16:15 en leikurinn klukkan 17:00.

Guðný segir að endurbæturnar séu góður áfangi í vaxandi íþróttamiðstöð sveitarfélagsins. Aðspurð segir Guðný að von sé á nokkrum fjölda áhorfenda en hún telur að ef til þess kæmi væri sjálfsagt hægt að koma yfir 300 manns í húsið.

Hún segir aðspurð að Kormákur sé með mjög frambærilegt lið í þriðju deild en ljóst sé að við ramman reip verði að draga.

KR-ingar hafa orðið Íslandsmeistarar síðastliðin fjögur ár.
KR-ingar hafa orðið Íslandsmeistarar síðastliðin fjögur ár. Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert