„Betra að fá smá kipp heldur en að veikjast“

Sérstaklega er hvatt til bólusetningar gegn mislingum.
Sérstaklega er hvatt til bólusetningar gegn mislingum. Thinkstock

„Góðan dag, þetta er Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir á Íslandi. Í flugvélinni í gær sátuð þið fyrir aftan mann sem greindist með mislinga.“

Einhvern veginn þannig gæti samtal Þórólfs við Íslendinga á ferðalagi í Evrópu síðasta sumar hafa byrjað. Þegar í ljós kemur að ferðalangur er með alvarlegan smitsjúkdóm fer í gang alþjóðlegt upplýsinga- og viðvörunarkerfi og var þetta samtal liður í því.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Þórólfur að sérstaklega sé fylgst með um 50 alvarlegum smitsjúkdómum og eru mislingar þar á meðal, en hvert tilvik er vegið og metið. „Ef þessir sjúkdómar greinast fer svokölluð smitrakning af stað og eru þá ýmsir þættir kannaðir, meðal annars hvar viðkomandi hefur verið og í tengslum við hverja,“ segir Þórólfur.

„Ef vitað er að einhver sem er með mislinga hefur verið í flugi þá er yfirleitt vitað hvar hann hefur setið og hverjir sátu næst honum. Þá er haft samband við þá farþega sem sátu nálægt viðkomandi í flugvélinni. Það er gert bæði til þess að heyra hvernig það fólk hefur það, hvort það hefur verið bólusett og vara það við ef það fær sjúkdómseinkenni.“

Farþegalistar og sætisnúmer

Þórólfur segir að um sé að ræða alþjóðlegt kerfi landa í Evrópu og Bandaríkjunum og í gegnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunina og alþjóðlega samninga. Tengiliðir í löndunum hafi samband sín á milli ef svona lagað komi upp og séu fljótir að bregðast við, fá farþegalista og sætisnúmer hjá flugfélögum og hafa uppi á viðkomandi. Þórólfur tekur fram að í flugvélum sé þó ekki sérstaklega mikil smithætta.

„Ég held að þetta kerfi virki ágætlega,“ segir Þórólfur. „Það kemur fyrir að við þurfum að taka upp símann og segja fólki hver staðan sé og fá upplýsingar um bólusetningar og hvort líkur séu á smitun. Stundum verður fólki hverft við, en það er betra að fá smá kipp heldur en að veikjast og vita ekki af neinu. Ef upp koma tilvik hérlendis erum við sömuleiðis með lista yfir tengiliði í öðrum löndum.“ 

Vaxandi áhyggjur af útbreiðslu

Vaxandi áhyggjur eru af útbreiðslu mislinga og að sögn Þórólfs hafa á síðustu tólf mánuðum um 15 þúsund einstaklingar greinst með mislinga í Evrópu, flestir á Ítalíu og í Rúmeníu. Um 30 einstaklingar hafa dáið í Evrópu úr mislingum á þessu ári.

Hérlendis hófst bólusetning gegn mislingum um 1976 og er bólusett við 18 mánaða og 12 ára aldur. Þátttaka hérlendis er yfir 90% og hefur Embætti landlæknis ítrekað hvatt til enn meiri þátttöku því mislingar séu mjög smitandi og geti verið hættulegir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert