Bærinn ósammála Blikum

Skrifstofur Kópavogsbæjar.
Skrifstofur Kópavogsbæjar. mbl.is/Hjörtur

Með því að endurnýja gervigrasið í Fagralundi og upphita völlinn verður þörf Breiðabliks fyrir æfingaaðstöðu fullnægt, að því er fram kemur í orðsendingu frá Kópavogsbæ. Þetta stangast á við mat framkvæmdastjóra Blika, sem telur að félagið þurfi tvo til þrjá velli til viðbótar við núverandi aðstöðu, til að geta mætt þörf félagsins fyrir aðstöðu.

Ljóst er að Kópavogsbær er ekki sammála þeirri þörf sem Breiðablik hefur lýst.

Frétt mbl.is: Blika vantar tvo til þrjá velli

Um 1.600 iðkendur æfa knattspyrnu undir merkjum Breiðabliks. Í skýrslu sem VSÓ vann fyrir Kópavogsbæ á dögunum komu fram þær tillögur að yngri iðkendur myndu í auknum mæli æfa á parketi í íþróttasölum bæjarins. Það hugnast forsvarsmönnum Breiðabliks illa, eins og kom fram í samtali mbl.is við Eystein Pétur Lárusson framkvæmdastjóra. „Kraf­an í nú­tím­an­um er að æft sé á gervi­grasi. Og það er það, meðal ann­ars, sem hef­ur verið að skila þess­um ár­angri sem við sjá­um hjá landsliðunum okk­ar,“ sagði hann.

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks.
Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks. Ljósmynd / Aðsend

Í skýrslunni var lagt til að íþróttafélögin HK og Breiðablik myndu samnýta Kórinn auk þess sem hægt væri að bæta nýtingu á Fífunni með því að æfa stífar á morgnanna og á kvöldin.

Eysteinn sagði við mbl.is að hann fagnaði skýrslunni sem staðfesti að skortur væri á æfingaaðstöðu fyrir Breiðablik. Hann sagði að tvo til þrjá nýja velli þyrfti til að anna eftirspurn félagsins. Þar væri endurnýjun á grasi í Fagralundi bara byrjunin.

Kópavogsbær segir að bæta megi nýtingu í Fífunni, samkvæmt þeirri skýrslu sem áður er getið í henni var æfingaaðstaða Breiðabliks tekin út. „Niðurstöður skýrslunnar eru meðal annars þær að nýta mætti Fífuna betur með því að lengja tímann sem hún er nýtt til knattspyrnuiðkunar. Bent er á að nýta mætti betur tíma á milli 14 og 15, með samstarfi og samráði skólayfirvalda og íþróttafélaga væri hægt að hefja æfingar klukkan 14.00. Þá mætti færa eldri flokka að hluta til yfir á morgnana og fá þannig betri nýtingu fyrir yngri flokka síðdegis í Fífunni,“ segir í orðsendingu bæjarins til mbl.is.

Frétt mbl.is: Lagt til að Blikar sendi yngstu börnin á parket

Bent er á að lagt sé til að gervigras í Fagralundi verði endurnýjað og völlurinn upphitaður. „Með því að endurnýja völlinn verði þörf Breiðabliks fyrir æfingaraðstöðu fullnægt en ástand vallar í Fagralundi hefur dregið úr notkun hans. Einnig er lagt til að íþróttahús í nærumhverfi yngstu iðkenda verði nýtt betur.“

Fram kemur að það sé í samræmi við metnað Kópavogsbæjar að búa vel að íþróttafélögum bæjarins enda sé aðstaða Breiðabliks með því besta sem gerist á landinu. „Skýrslan er hugsuð sem rýni á aðstöðu Breiðabliks og getur nýst félaginu til betri nýtingar á mannvirkjum sem félagið hefur yfirráð yfir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert