Liggur „ekkert rosalega á“ Hvammsvirkjun

Inntakslón Hvammsvirkjunar yrði 4 ferkilómetrar af stærð og myndu hólmar …
Inntakslón Hvammsvirkjunar yrði 4 ferkilómetrar af stærð og myndu hólmar og flúðir, sem sjást á þessari mynd, fara á kaf. mbl.is/Golli

Ekkert liggur „rosalega á“ að byggja fyrirhugaða Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár, að mati oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Stefnt var að því að hefja útboðsferli á þessu ári og framkvæmdir fljótlega eftir það. Að sögn Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, er enn útlit fyrir að Hvammsvirkjun verði næsta virkjun fyrirtækisins „en það er ekki þannig að þetta sé alveg að bresta á“. Ekki sé búið að taka ákvörðun um nákvæmlega hvenær ráðist yrði í byggingu hennar og „ljóst er að ekki verður farið í framkvæmdir á næsta ári“.

 Engar tekjur – engin störf

Áhrifasvæði Hvammsvirkjunar yrði í tveimur sveitarfélögum; Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra. „Við lítum á þetta sem fórn. Það er alveg klárt mál,“ segir Björgvin Skafti Bjarnason oddviti, spurður hvers vegna Skeiða- og Gnúpverjahreppur ætti að samþykkja Hvammsvirkjun sem myndi engin störf skapa í hreppnum og engar beinar tekjur. Hann segir að ákvörðunin þurfi að byggjast á þjóðhagslegri hagkvæmni. „Ef það er þörf á virkjun þá virkjum við, ef það er ekki þörf þá virkjum við ekki. Svo er það matsatriði hvað er þörf.“

Hann segir fyrir sitt leyti að líkur séu á að Hvammsvirkjun verði byggð einhvern daginn „en við hljótum að gera þá kröfu að rafmagnið sé notað í eitthvað sem fari á okkar svæði, að minnsta kosti að hluta, og að starfsemin sé sjálfbær, umhverfisvæn og þjóðhagslega hagkvæm“.

Landsvirkjun er nú í fyrsta sinn með tvær virkjanir í byggingu í einu; Þeistareyki og Búrfell II. „Þarf að reisa Hvammsvirkjun? Einhvers staðar verðum við að draga mörkin,“ segir Anna Sigríður Valdimarsdóttir, íbúi á Stóra-Núpi við Þjórsá. Með inntakslóni Hvammsvirkjunar færu flúðir og hólmar á kaf og árniðurinn við heimili Önnu myndi hljóðna.

Í nýlegri þingsályktunartillögu rammaáætlunar er lagt til að tvær virkjanir til viðbótar í neðanverðri Þjórsá fari í orkunýtingarflokk; Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Mikil andstaða var við þessa virkjanaþrennu fyrir nokkrum árum.

Fjallað er ítarlega um þessi áform í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert