Sagðist vera með skotvopn

Maðurinn var handtekinn vegna hótana um að bera á sér …
Maðurinn var handtekinn vegna hótana um að bera á sér skotvopn. mbl.is/Eggert

Karlmaður um sextugt sem var handtekinn í nótt í Laugardalnum vegna gruns um að vera vopnaður skotvopni verður yfirheyrður upp úr hádeginu í dag. Þegar útkallið barst í nótt vopnuðust lögreglumenn og sérsveit lögreglunnar var einnig kölluð út.

Tildrög málsins eru að kona sem maðurinn þekkir vel til hringdi á lögregluna vegna hótana mannsins um að hann bæri skotvopn. Maðurinn býr í húsbíl og handtók lögreglan manninn þar. Hann er með eitt skráð skotvopn en var ekki með slíkt á sér þegar hann var handtekinn.

Maðurinn neitaði lögreglunni um húsleit. Lögreglan mun óska eftir henni við yfirheyrslu í dag þegar runnið verður af manninum ef hann veitir hana ekki verður óskað eftir dómsúrskurði um húsleit, að sögn Guðmundar Péturs Guðmundssonar lögreglufulltrúa.

Spurður hvort maðurinn hafi komið við sögu lögreglu áður sagði Guðmundur Pétur að það væri „ekkert að ráði.“

Lögreglan hefur einnig lagt hald á bílinn. Ekki fékkst upp gefið hvar bíllinn var þegar maðurinn var handtekinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert