Ekki stórtjón á Siglufirði

Það hefur snjóað lítillega á Siglufirði í morgun.
Það hefur snjóað lítillega á Siglufirði í morgun. mbl.is/Sigurður Ægisson

Slökkviliðið í Fjallabyggð hefur haft í nægu að snúast í nótt en mjög mikil úrkoma var þar í gærkvöldi og nótt. Há sjávarstaða skipti þar miklu og flæddi inn í kjallara 3-4 húsa á Siglufirði.

Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar, segir í samtali við mbl.is að bæði slökkvilið og björgunarsveitarmenn hafi verið að störfum við að dæla upp úr brunnum og eins kjöllurum húsa. Björgunarsveitarmenn voru enn að störfum í morgun, að sögn Ámunda en mjög hefur dregið úr úrkomunni í morgun.

Ámundi segir að með því að dæla upp úr brunnum hafi verið hægt að koma í veg fyrir að það flæddi mikið upp úr niðurföllum. „Sjávarstaðan var mjög há og því var mjög hátt í kerfinu þannig að dælt var upp úr brunnum á tveimur eða þremur stöðum. Þannig gátum við komið í veg fyrir flóð,“ segir Ámundi en háflóð var á Siglufirði um sex leytið í morgun.

Lægð gærdagsins er nú komin 200 km norðaustur af Langanesi og er 968 mb. Hún grynnist meira í dag og fer áfram til norðausturs og fjarlægist landið. Veður fer því almennt batnandi þegar líður á daginn.

Það rignir enn á Norðurlandi, en næstu klukkustundir dregur úr og það styttir upp kringum hádegi. Áfram er búist við vatnavöxtum á annesjum á Norðurlandi og aukinni hættu á skriðuföllum þar til vatn hefur sjatnað.

Ámundi segir að þegar áttin og sjávarstaðan er þannig sé alltaf hætta á flóðum en búið er að endurbæta kerfið þannig að hættan er ekki eins og hún var oft áður.

Fyrir tveimur árum rigndi gríðarlega á Siglufirði og urðu talsverðar skemmdir í bænum vegna aurflóða. Að sögn Ámunda er ekki vitað um nein aurflóð núna en samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands í morgun mældist úrkoman frá hádegi í gær þangað til um sex í morgun 90 millimetrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert