Innlögn á geðdeild á að vera bráðaaðstoð

Innlögn á geðdeild á að vera bráðaaðstoð, enda getur hún …
Innlögn á geðdeild á að vera bráðaaðstoð, enda getur hún verið íþyngjandi fyrir fólk og mikið inngrip. mbl.is/Golli

„Það er vont þegar það vantar svona stóran hlekk í þjónustukeðjuna. Við höfum annars vegar heilsugæsluna og hins vegar sjúkrahús og það er himinn og haf þarna á milli,“ segir María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala.

Mbl.is greindi frá því nú í vikunni að innlögnum á geðdeild Landspítalans fækkaði um 25% og legudögum um 35% hjá þeim sem njóta þjónustu Geðheilsustöðvar Breiðholts, eftir að stöðin var stofnuð árið 2012.

María segir víðar vanta það millistykki sem geðheilsustöðin sé, enda veiti stöðin mikila og góða þjónustu. Hún segir starfsfólk geðsviðs Landspítalans líka hafa fundið verulegan mun eftir að stöðin tók til starfa.

Innlagnir eiga að vera bráðaaðstoð

„Þetta skilaði sér strax í fækkun innlagna og styttingu legutíma. Það varð auðveldara að útskrifa fólk af því það fór aftur í úrræðið,“ útskýrir hún og segir gott samstarf vera á milli geðdeildar og geðheilsustöðvarinnar. „Þau meta þörf fyrir innlögn, leggja sitt faglega mat á ástandið og hafa svo samband við okkur.“

María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, kveðst gjarnan myndu vilja sjá …
María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, kveðst gjarnan myndu vilja sjá geðheilsstöðvar starfræktar víðar, enda sé sú í Breiðholtinu búin að sanna gagnsemi sína. mbl.is/Golli

Hún kveðst varla getað lofað samstarfið nógsamlega. „Þetta var hlekkur sem vantaði í þjónustukeðjuna.“ Ekki sé hægt að ætla heilsugæslustöðvum að geta lagt endanlegt mat á þörf fyrir innlögn á geðdeild, en það geti geðheilsustöðin mun betur gert. Sömuleiðis séu skjólstæðingar stöðvarinnar þyngri hópur en heilsugæslan almennt ráði við. „Fólk þarf yfirhöfuð ekki innlögn, nema líðan þess versni tímabundið,“  segir hún.

„Innlagnir einar og sér eru líka bara bráðaaðstoð og oft mjög íþyngjandi fyrir fólk og mikið inngrip,“ útskýrir María og kveður mikilvægt að geta veitt rétta þjónustu á réttum stað og réttum tíma. „Stundum er innlögn við hæfi og besta hjálpin, en oft er svona úrræði miklu betri hjálp.“

Hefði verið hægt að gera meira fyrr í ferlinu

María kveðst gjarnan myndu vilja sjá geðheilsustöðvar starfræktar víðar, enda sé sú í Breiðholtinu búin að sanna gagnsemi sína. „Ég myndi vilja sjá svona teymi vera á öllu höfuðborgarsvæðinu og raunar út um allt land. Þetta var tilraunaverkefni sem var sett á laggirnar vegna þess að þörfin var meiri í þessum borgarhluta en annars staðar og þetta hefur gengið mjög vel.“

Sjálf var hún í stýrihóp fyrir verkefninu, sem fékk verðlaun hjá Reykjavíkurborg á sínum tíma. Nú í haust skilaði síðan annar hópur inn aðgerðaráætlun um að fjölga geðheilsustöðvunum með því að stofna eina stöð í vesturhluta borgarinnar og svo aðra fyrir Kragann.

Skortur á geðheilsustöðvum lengir legutíma á geðdeild og felur í …
Skortur á geðheilsustöðvum lengir legutíma á geðdeild og felur í sér að fólk er oft orðið mjög veikt er það kemur á spítala. mbl.is/Hjörtur

Spurð um muninn á þeim svæðum sem hafi aðgengi að geðheilsustöð og hinum segir hún erfiðara að útskrifa fólk til annarra svæða. „Þetta lengir legutímann og fólk er kannski að koma of seint til okkar. Það er stundum orðið ansi mikið veikt þegar það kemur til okkar á spítalan og þá hugsar maður með sér að það hefði verið hægt að gera svo miklu meira fyrr í ferlinu og það er synd að horfa upp á.“

Geðheilsustöðvar geti þannig gripið fyrr inn og stytt legutíma, auk þess að fylgja fólki eftir.

María segir heldur ekki hægt að meta til fjár bætt lífsgæði skjólstæðinga stöðvarinnar. „Fyrst og síðast snýst þetta um lífsgæði. Að fólk geti lifað eða hafi lífsfyllingu og geti verið virkir þjóðfélagsþegnar.“

Ekki hægt að horfa upp á ungt fólk fara á örorku

Öflug geðheilsuteymi eru starfrækt í  þeim nágrannalöndum sem Ísland vill oft bera sig saman við, eins og t.d. í  Bretlandi og á Norðurlöndunum „Þar eru öflug geðheilsuteymi alls staðar,“ segir hún. „Á sama tíma erum við að horfa fram á vaxandi örorku vegna geðsjúkdóma og við verðum að fara að taka almennilega á málaflokknum. Það er ekki hægt að horfa upp á ungt fólk fara á örorku í svona miklum mæli eins og við erum að sjá á Íslandi.“

María vonar líka að þingkosningarnar síðar í þessum mánuði hafi ekki neikvæð áhrif á fjölgun geðheilsustöðva. „Þetta er eitthvað sem skilar árangri,“ segir hún. „Það er búið að setja geðheilsumál á dagskrá. Síðasta stjórn sett geðheilbrigðismál inn í sinn stjórnarsáttmála og ég treysti því bara að þeir sem taka við stjórnartauminum verði sama sinnis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert