Festi bíl í fjörunni

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Lögreglan á Austurlandi varð að koma ferðamanni til bjargar í Viðfirði á fimmtudag en hann hafði ekið bílaleigubifreið sem hann var á fram í fjöru og fest hana þar. Ekki fór betur en svo að það flæddi að bifreiðinni og hún var ógangfær á eftir. 

Auk þessa hafði hann ekið utanvegar og valdið gróðurskemmdum. Ökumaður var færður á lögreglustöð á Eskifirði þar sem honum var gert að greiða sekt fyrir að aka utanvegar. Auk þessa má búast við að nokkur kostnaður hafi hlotist af því að sækja bifreiðina en starfsmenn Áhaldaleigu Austurlands fóru á staðinn með tæki og tól til að sækja bifreiðina. Lögreglan naut aðstoðar Björgunarsveitarinnar Gerpis í Neskaupstað við að sækja ökumanninn, segir í dagbók lögreglu.

Fimm umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi síðustu fimm daga. Óhöppin voru að mestu slysalaus en einn ökumaður sem missti stjórn á bifreið sinni í hálku á hringveginum í Langadal var fluttur af vettvangi með sjúkrabifreið.

Í gær gerði mikið hvassviðri á Austfjörðum, sérstaklega í Neskaupstað. Á hafnarsvæðinu í Neskaupstað fuku gámar til í einni hviðunni og vildi ekki betur til að einn þeirra hafnaði á pallbifreið sem var á höfninni. Nokkrar skemmdir urðu á bifreiðinni.

Olíumengun varð í Stöðvarfjarðarhöfn þegar dísilolía lak í höfnina. Óhappið varð þegar gleymdist að slökkva á dælu sem var notuð til að dæla olíunni á milli tanka. Töluvert magn olíu lak í sjóinn. Starfsmenn Fjarðabyggðar settu út pylsur sem sugu í sig olíuna auk þess sem starfsmenn frá Bólholti komu með dælubíl og dældu upp olíumenguðum sjó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert