Kærleiksrík hefð í skókassa

Verkefnið Jól í skókassa fer nú fram í 14. sinn.
Verkefnið Jól í skókassa fer nú fram í 14. sinn. Árni Sæberg

71 dagur er til jóla en það er ekki seinna vænna að huga að jólagjöfunum, að minnsta kosti þeim sem eiga að fara í skókassa. Verkefnið Jól í skókassa fer nú fram í 14. sinn og að sögn Mjallar Þórarinsdóttur, sjálfboðaliða, eru skókassarnir þegar farnir að streyma inn.

Með verkefninu er safnað fyr­ir bág­stödd börn í Úkraínu. Jóla­gjaf­irn­ar eru send­ar til barna sem mörg hver búa við mikla fá­tækt, lifa við fötl­un eða lang­vinna sjúk­dóma eða stríðsógn, einkum í aust­an­verðu land­inu.

„Fyrsta árið voru sendir 500 kassar en síðustu ár hafa þeir verið um 5000,“ segir Mjöll. Frá upphafi hafa yfir 50.000 skókassar verið sendir til Úkraínu.

Verk­efnið fer þannig fram að fólk er beðið að út­búa skó­kassa með lausu loki og setja í þá hluti í fimm flokk­um; leik­föng, skóla­dót, hrein­lætis­vör­ur, sæl­gæti og föt. „Húfur, vettlingar og sokkar er alltaf vinsælt að setja í pakkana, það hentar öllum aldri. En vel með farin leikföng, tannburstar, tannkrem og aðrar snyrtivörur reynast líka vel,“ segir Mjöll. Hún segir einnig að skemmtileg og kærleiksrík hefð hafi skapast hjá fjölda fjölskyldna og að Jól í skókassa séu orðin órjúfanlegur hluti af jólaundirbúningnum hjá mörgum sem henni þykir afar vænt um.

Tekið verður á móti skókössum í húsi KFUM og KFUK til 11. nóv­em­ber. Fjöldi sjálfboðaliða mun vinna hörðum höndum við að taka á móti kössum, yfirfara og merkja og koma þeim til Úkraínu þar sem kössunum er komið í réttar hendur.  

Hér má finna allar upplýsingar um Jól í skókassa og móttökustaði.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert