Lögbannsmálið gegn The Guardian ætti að skýrast í dag

Ingólfur Hauksson, framkvæmdastjóri Glitnis HoldCo ehf.
Ingólfur Hauksson, framkvæmdastjóri Glitnis HoldCo ehf.

Ingólfur Hauksson, forstjóri Glitnis HoldCo, reiknar með að það skýrist í dag hvort farið verði fram á lögbann á fréttaflutning The Guardian af viðskiptavinum Glitnis.

Glitnir HoldCo fékk því framgengt í gær að lögbann yrði lagt á Stundina og Reykjavik Media vegna frétta upp úr gögnum sem Glitnir telur að séu stolin. Fréttirnar hafa eingöngu snúist um viðskipti Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og fjölskyldumeðlima hans. „Ljóst er að umfjöllunin byggist á umfangsmiklum gögnum sem varða fjölmarga nafngreinda viðskiptamenn bankans,“ segir í lögbannsbeiðninni sem lögð var fram til sýslumanns fyrir helgi. Henni var svo framfylgt af sýslumanni í gærkvöldi.

„Við höfum fengið staðfestar upplýsingar um það,“ segir Ingólfur spurður hvað fyrirtækið hafi fyrir sér í því að The Guardian, Stundin og Reykjavík Media hafi upplýsingar um fjölmarga viðskiptavini Glitnis. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um hvaða upplýsingar það væru.

Ingólfur segir við mbl.is að Glitnir telji að um stolin gögn sé að ræða. Fyrirtækið hafi þess vegna tilkynnt Fjármálaeftirlitinu um málið. RÚV greindi frá því í dag að Fjármálaeftirlitið muni að öllum líkindum kæra gagnaleka úr þrotabúi Glitnis til embættis héraðssaksóknara en fréttir fjölmiðlanna þriggja hafa byggst á upplýsingum sem þrotabúið býr yfir.

Grunur um brot á þagnarskyldu

Sambærilegur gagnaleki var kærður til embættisins í febrúar eftir að RÚV fjallaði um fjármálaumsvif dómara við Hæstarétt, en nokkrir þeirra áttu í  viðskiptum með hlutabréf í Glitni fyrir hrun. Lög um fjármálafyrirtæki kveða á um að aðeins megi rannsaka brot hafi Fjármálaeftirlitið lagt fram kæru. Haft er eftir Unni að ekki megi horfa fram hjá því að sýslumaður hafi samþykkt lögbannið, þar sem rökstuddur grunur á brot á þagnarskyldu, sem varði 58. grein laga um fjármálafyrirtæki.

Stundin stendur í ströngu. Á myndinni eru aðstandendur fjölmiðilsins; Jón …
Stundin stendur í ströngu. Á myndinni eru aðstandendur fjölmiðilsins; Jón Ingi Stefánsson, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, Jón Trausti Reynisson og Heiða B. Heiðars. Ljósmynd/Karolina Fund

Glitnir HoldCo krafðist þess í gær að fjölmiðlunum Stundinni og Reykjavík Media yrði gert að eyða út þeim fréttum sem þegar höfðu verið birtar upp úr gögnunum. Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, mótmælti því og úr varð að sýslumaður féll frá þeirri kröfu. Ingólfur segir aðspurður að það hafi ekki verið „aðalmálið“. „Við erum aðallega að hugsa um þennan fjölda sem þarna eru upplýsingar um.“

Segir engin samskipti við Bjarna

Jón Trausti sagði við mbl.is í morgun að Stundin myndi aldrei fjalla um viðskipti venjulegs fólks. Umfjöllun Stund­ar­inn­ar hafi al­farið verið bund­in við kjör­inn full­trúa og aðila tengd­um hon­um. „Aug­ljós­lega eru viðskipti venju­legs fólks ekki eitt­hvað sem við mynd­um nokk­urn tím­ann fjalla um. Það eru held­ur ekki hefðbund­in viðskipti þegar kjör­inn full­trúi hef­ur aðgengi að upp­lýs­ing­um um banka og stund­ar svo stór­felld viðskipti,“ sagði hann.

Ingólfur sagði við mbl.is að Glitnir HoldCo hefði ekki verið í neinum samskiptum við Bjarna Benediktsson vegna lögbannskröfunnar. „Nei, engin.“

Spurður um hugsanlega lögbannskröfu gagnvart The Guardian segir Ingólfur að það mál væri í vinnslu. Hann gæti ekki svarað því á þessari stundu. Spurður hvort niðurstöðu væri að vænta í því máli í dag svaraði Ingólfur: „Ég reikna með því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert