Meira samstarf við Ísland eftir Brexit

AFP

Hvers vegna eru Bretar að yfirgefa Evrópusambandið? Þessari spurningu varpaði Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, fram í upphafi erindis sem hann flutti í morgun á fundi á vegum Félags atvinnurekenda þar sem rætt var um útgöngu landsins úr sambandinu sem gjarnan hefur verið kölluð Brexit.

Sendiherrann sagði að um langt árabil hefðu Bretar horft upp á þróun fyrir tilstuðlan Evrópusambandsins og ákvarðanir teknar á vettvangi þess sem þeir hafi átt litla samleið með. Mikið af regluverki hafi orðið til hjá sambandinu sem Bretum hafi ekki þótt þeir hafa mikið um að segja. Þá hefði afskipti þess af innanlandsmálum farið sífellt vaxandi.

Þetta hafi ekki síst verið það sem legið hafi til grundvallar þegar meirihluti breskra kjósenda ákvað í þjóðaratkvæði á síðasta ári að segja skilið við Evrópusambandið. Fleiri mál hafi spilað þar inn í og þar á meðal krafa um að endurheimta stjórn landsmæra landsins og sú skoðun að sambandið drægi úr möguleikum Breta á að eiga í alþjóðlegum viðskiptum.

Bretland að yfirgefa ESB en ekki Evrópu

Vísaði hann þar til þess að ríki Evrópusambandsins hefðu framselt til sambandsins valdið til þess að semja um viðskipti við önnur ríki. Þjóðaratkvæðið hefði farið fram og nú væri unnið að því af breskum stjórnvöldum að framfylgja niðurstöðunni. Lagði Nevin áherslu á að Bretland væri að yfirgefa stofnunina Evrópusambandið en ekki heimsálfuna Evrópu.

Þannig vildu Bretar áfram eiga í nánu samstarfi og viðskiptum við önnur ríki í Evrópu og um það snerust yfirstandandi viðræður breskra stjórnvalda við Evrópusambandið um tengslin þar á milli eftir að Bretar formlega yfirgefa sambandið. Í því sambandi legðu breskir ráðamenn áherslu á að semja um samning sem væri sérsniðinn að breskum aðstæðum.

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi.
Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi. Ljósmynd/Sendiráð Bretlands

Fyrir vikið væri það ekki stefna Bretlands að afrita samninga sem önnur ríki hefðu gert við Evrópusambandið eins og til dæmis EES-samninginn eða fríverslunarsamning sambandsins við Kanada. Hins vegar væri sá möguleiki fyrir hendi að horfa til einstakra atriða í öðrum samningum sem fyrirmynd í mögulegum samningi Bretlands og Evrópusambandsins.

Sendiherrann lagði áherslu á að Bretar gætu ekki samþykkt að vera undir fjórfrelsið svonefnt, frjálst flæði fjármagns, fólks, varnings og þjónustu, settir sem fylgdi bæði EES-samningnum og veru í Evrópusambandinu. Þar hafa bresk stjórnvöld vísað til þess að frjálst flæði fólks frá sambandinu þýddi að Bretar gætu ekki stýrt landamærum sínum sem skyldi.

EES-samningurinn gerir málið flóknara

Hvað Ísland varðaði sagði Nevin að tengsl landanna hefðu lengi verið sterk þrátt fyrir ákveðna árekstra. Sýn Íslendinga og Breta á heimsmálin væru á margan hátt lík. Mikið samtal hefði átt sér stað á milli íslenskra og breskra stjórnvalda frá því að þjóðaratkvæðið fór fram og stefnt væri að því að halda tengslum landanna óbreyttum eins og kostur væri.

Þess utan væri til skoðunar með hvaða hætti Bretland og Ísland gætu átt í enn frekara samstarfi þess utan í alþjóðamálum. Bæði varðandi viðskiptamál en einnig nánara samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Fyrsta verkefnið til skemmri tíma litið væri hins vegar að tryggja eins og kostur væri að núverandi samstarf yrði fyrir sem minnstum truflunum.

Það sem gerði þetta hins vegar flóknara væru tengsl Íslands við Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn. Hugsanlega yrði niðurstaðan nokkrir tvíhliða samningar á milli Íslands og Bretlands en einn heildarsamningur. Það væri ekki ljóst enn. Koma yrði í ljósi hvernig hægt væri að útfæra tengsl landanna með tilliti til aðildar Íslands að EES-samningnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert