Óþolandi árás á tjáningarfrelsið

Aðgerðir sýslumanns í Reykjavík eru víða fordæmdar.
Aðgerðir sýslumanns í Reykjavík eru víða fordæmdar. mbl.is/Friðrik Tryggvason

PEN á Íslandi, samtök rithöfunda, þýðenda og ritstjóra sem vilja standa vörð um tjáningarfrelsið, fordæma lögbann sýslumannsins í Reykjavík á frekari umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media um tengsl stjórnmálamanna og fjármálastofnanna sem unnin er upp úr gögnum þrotabús Glitnis.

„Það er óþolandi árás á tjáningarfrelsið að hægt sé að stöðva samfélagslega umræðu um mál sem varðar almenning án rannsóknar á því hvort viðkomandi fjölmiðlar hafi brotið lög og án efnislegrar fyrirtöku fyrir dómstólum og niðurstöðu þeirra,“ segir í tilkynningu frá PEN vegna málsins.

Ennfremur segir að aðfarir lögmanns í gær minni á rassíur yfirvalda í einræðisríkjum gagnvart fjölmiðlum og skapi þær hættulegt fordæmi. „Tímasetning lögbannsins í aðdraganda alþingiskosninga gefur svo tilefni til grunsemda um að baki þess liggi stjórnmálalegar ástæður,“ segir í tilkynningunni.

Þess er krafist að Sýslumaðurinn í Reykjavík dragi lögbannsúrskurð sinn til baka. „Við skorum svo á næsta þing að hefja tafarlausa endurskoðun þeirra laga sem gera slíkar atlögur að tjáningarfrelsinu mögulegar.“

Aðför gegn lýðræðinu

Rithöfundasamband Íslands tekur í sama streng. Það fordæmir lögbannið og segir að yfirvöldum í lýðræðissamfélagi beri skylda til að standa vörð um tjáningarfrelsið. 

„Málfrelsi og frelsi einstaklinga og fjölmiðla til tjáningar og umfjöllunar er hornsteinn siðmenningar og lýðræðis. Valdbeiting gegn tjáningarfrelsi er aðför gegn lýðræðinu. Við hörmum að slíkt geti gerst í okkar upplýsta landi og skorum á sýslumann að afturkalla lögbann sitt,“ segir á heimasíðu Rithöfundasambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert