Áfram stormur við suðurströndina á morgun

Veðurútlit á hádegi á morgun.
Veðurútlit á hádegi á morgun.

Það sló í storm á nokkrum stöðum á Suðvesturlandi í dag þar sem vindur mældist um 20 m/s. Verstar voru hviðurnar við fjöll, m.a. við Hafnarfjallið þar sem vindhraðinn fór hátt í 40 m/s í verstu hviðunum í dag.  

Lítið er tekið að draga úr vindi, en fer þó að hægja aðeins á í kvöld og í nótt að sögn Haraldar Eiríkssonar veðurfræðings á vakt á Veðurstofu Íslands. Á morgun má síðan búast við stífri austanátt, 10-15 m/s, víða um land en stormi með suðurströndinni þar sem búast má við sambærilegum vindhraða og var í dag. Segir hann að undir Eyjafjöllunum geti vindhraðinn farið í 20-25 m/s. „Það er hviðótt þarna undir fjöllunum,“ segir Haraldur. „Annars staðar verður vindurinn hins vegar varla til trafala.“

Veðurvefur mbl.is

Frekar blautt verður þá á landinu á morgun og er spáð talsverðri og jafnvel mikilli úrkomu á Suðausturlandi og Austfjörðum. „Annars staðar verður þetta bara svona venjuleg rigning,“ bætir hann við.

Hiti verður með svipuðu móti og í dag, frá 6 og upp í 10 gráður þar sem hlýjast verður.

Horfur eru á skárra veðri um helgina að sögn Haraldar. „Þetta er að ganga niður á föstudeginum, þá styttir upp sunnan og vestanlands og síðar einnig á Norðurlandi. Um helgina lítur síðan út fyrir að verða rólegheita veður og jafnvel nokkuð sólríkt á Vesturlandi en skýjað fyrir austan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert