Bæta þarf laun, starfsumhverfi og vinnutíma

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hvetur stjórnvöld til aðgerða.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hvetur stjórnvöld til aðgerða. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson

Sviðsstjóri kjarasviðs í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að eitthvað þurfi að gera til að halda hjúkrunarfræðingum í starfi. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar vantar 570 hjúkrunarfræðinga til starfa í heilbrigðiskerfinu.

Gunnar Helgason sviðsstjóri kjarasviðs í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að félagið hafi veitt Ríkisendurskoðun talsvert af upplýsingum sem koma fram í skýrslunni og því sé hún í samræmi við það sem félagið hefur haldið fram undanfarin ár.

Okkur hefur fundist vanta að fólk bregðist við og næsta skref sé tekið, sérstaklega að stjórnvöld bregðist við,“ segir Gunnar og nefnir í því samhengi frétt frá því í febrúar þar sem fram kemur að það vanti um 500 hjúkrunarfræðinga til starfa.

„Við setjum fram tillögur um hvað þurfi að gera til að breyta þessu,“ bætir Gunnar við.

Fjöldi hjúkrunarfræðinga sinnir öðrum störfum

Hann segir að bæta þurfi aðbúnað háskóla til að þeir séu betur í stakk búnir til að útskrifa fleiri. Í skýrslunni er bent á að Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri hafi síðustu fimm ár að jafnaði útskrifað samtals 127 hjúkrunarfræðinga árlega.

„Það þarf einnig að gera eitthvað til að halda hjúkrunarfræðingum í starfi en talsverður fjöldi þeirra starfar við eitthvað annað en hjúkrun,“ segir Gunnar og bendir á að þrír hlutir skipti hjúkrunarfræðinga mestu máli varðandi vinnuna:

Þarf að bæta laun, starfsumhverfi og vinnutíma

Laun, starfsumhverfi og vinnutími. Þetta eru hlutir sem þarf að bæta. Þegar við berum laun okkar saman við aðra háskólamenntaða sem starfa hjá ríkinu munar miklu, sérstaklega þegar dagvinnulaun eru borin saman,“ segir Gunnar og bætir við að munurinn séu um það bil 20-25%.

Gunnar tekur undir með blaðamanni að skýrslan komi á góðum tíma enda kosningar rétt handan við hornið og stjórnmálaflokkar yfirleitt tilbúnir að lofa öllu fögru í þeirri baráttu. 

Svo er alltaf sú spurning hvað menn gera þegar þeir komast til valda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert