Búið að koma í veg fyrir frekari mengun

Slökkviliðið tók þátt í að stöðva olíumengunina í Grófarlæk.
Slökkviliðið tók þátt í að stöðva olíumengunina í Grófarlæk. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Olíumengunin í Grófarlæk tengist að öllum líkindum gömlu röri á svæði N1-bensínstöðvarinnar, en ekki olíugildru líkt og talið var. Búið er að koma í veg fyrir frekari mengun og segist Páll Stefánsson, heilbrigðisfulltrúi Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogsbæjar, telja að tekist hafi með samstilltu samstarfi að koma í veg fyrir tjón á lífríkinu.

Heilbrigðiseftirlitinu barst um hádegi á laugardag tilkynning um talsverða olíumengun í Grófarlæk í Fossvogsdal en lækurinn rennur í vestari Elliðaá. „Við töldum fyrst að þetta tengdist olíugildru, en svo virðist þetta frekar tengjast gömlu röri. Það breytir því þó ekki að uppruninn er á svæði N1 og þeir hafa verið okkur innan handa við allar aðgerðir,“ segir Páll og kveður olíumengunina ekki síður hafa komið forsvarsmönnum N1 á óvart en heilbrigðiseftirlitinu.

Olíubrák var á vatninu og er enn á gróðri og …
Olíubrák var á vatninu og er enn á gróðri og í lögum en unnið er að hreinsun. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Við erum búin að stöðva mengunarflauminn sem kom þarna niður og það er búið að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur,“ segir Páll. Heilbrigðiseftirlitið sé því komið langt með að ná utan um málið. „Það hefur gengið vonum framar að fanga olíuna og við teljum að við séum búin að ganga það vel frá að hún geti ekki valdið tjóni í Elliðaánum.“

Enn sé þó olía löðrandi við gróður og í fráveitukerfinu. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi notað gærdaginn í að bæta aðstöðuna í Grófarlæknum til að fanga þessar eftirhreytur. Síðan verði það samvinnuverkefni bæjarfélaganna að reyna að skola kerfið út á meðan vörnum verði komið fyrir í læknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert