Háskaleikur ferðamanns vekur óhug

Fallið niður er gífurlega hátt. Myndbandið er tekið í Fjaðrárgljúfri.
Fallið niður er gífurlega hátt. Myndbandið er tekið í Fjaðrárgljúfri. Skjáskot/Youtube

„Þetta er ekki æskileg ferðahegðun,“ segir Daði Guðjónsson, verkefnastjóri á sviði ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, um stutt myndband sem birt hefur verið á YouTube. Þar má sjá mann tefla á tvær hættur með því að feta hættulegt einstigi í Fjaðrárgljúfri. Maðurinn er hvorki í heppilegum skóm til príls af þessum toga né virðist hann vera búinn nokkrum öryggisbúnaði. Fallið beggja vegna er mjög hátt.

Óhætt er að segja að myndbandið veki óhug en það hefur meðal annars ratað á erlendar fréttasíður. Daði segir að markaðssetning Íslandsstofu miði að því að fræða erlenda ferðamenn um ábyrga ferðahegðun og hvernig hægt er að ferðast á Íslandi með öruggum hætti.

Hann segir dæmi um að ferðamenn geri sér ekki grein fyrir þeirri hættu sem að steðjar í íslenskri náttúru.

Daði bendir á að Íslandsstofa hafi skorað á ferðamenn að skuldbinda sig til að hegða sér með ábyrgum hætti á Íslandi og gangast undir „The Icelandic Pledge“ eða „íslensku heitin“ í lauslegri þýðingu.

Heitin samanstanda af hnyttnum texta sem kveður meðal annars á um að fólk hrófli ekki við náttúrunni, leggi sig ekki í hættu við að ná góðum ljósmyndum, aki ekki utan vega og leggi bifreið sinni á bílastæðum. Fólk strengir þess heit að tjalda á tjaldvæðum og gera þarfir sínar á þar til gerðum stöðum, en ekki úti í náttúrunni. Þá sé fólk undir slæmt veður og önnur ævintýri búið.

Daði segir að framferði þessa óþekkta ferðamanns sé ekki í samræmi við þessi heit, en honum sé ekki kunnugt um það hver hafi þarna verði á ferðinni.

Fjaðrárgljúfur.
Fjaðrárgljúfur. Mbl.is/Gísli Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert