Segja upp samningi við ISS um skólamat

Samningur Hafnarfjarðar og ISS náði til allra grunnskóla bæjarins nema …
Samningur Hafnarfjarðar og ISS náði til allra grunnskóla bæjarins nema eins og þriggja leikskóla. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Hafnarfjarðarbær hefur gert munnlegan samning um að hætta viðskiptum við fyrirtækið Skólaask, sem fyr­ir­tækið ISS Ísland rek­ur, um máltíðir fyrir nemendur í grunn- og leikskólum bæjarins. Í fréttatilkynningu frá bænum kemur fram að báðir aðilar hafi áhuga á að losna undan samningnum.

Bærinn gerði tvenns konar samninga við fyrirtækið í fyrra um skólamáltíðir fyrir grunn- og leikskóla og um máltíðir fyrir heimili aldraðra við Hjallabraut og Sólvangsveg. Samningurinn náði einnig yfir heimsendar máltíðir fyrir eldri borgara.

Kvartanir bárust undan matnum og í haust hætti bærinn viðskiptum við ISS vegna þjónustu við eldri borgara. Kvartanir hafa einnig borist vegna máltíða í grunn- og leikskólum bæjarins. 

Frétt mbl.is: Kvarta yfir mat skólamötuneytis

Unnið er að útfærslu samningslokanna og stendur til að bærinn hætti öllum viðskiptum við ISS frá og með næstu mánaðamótum.

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir í samtali við mbl.is að ekki sé hægt að greina frekar frá ástæðum uppsagnarinnar þar til skriflegir samningar hafi náðst. Samningurinn náði til allra grunnskóla í bænum sem eru ekki með eigin mötuneyti, að einum undanskildum, auk þriggja leikskóla.

Í fréttatilkynningunni kemur einnig fram að í framhaldinu muni bærinn leita til nýrra aðila um að taka að sér verkefnið. „Til þess þarf að vanda, m.a. vegna þess að svona samningur er útboðsskyldur undir venjulegum kringumstæðum,“ segir í tilkynningunni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert