Sigmundur þurfti á salernið

Umræddur fundur formanna á RÚV.
Umræddur fundur formanna á RÚV. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var væntanlega þannig sem ég lenti í þeirri sérkennilegu stöðu að þurfa að svara blaðamanni New York Times um salernisferðir mínar,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Facebook.

Í færslu greinir hann frá því að erlendur blaðamaður New York Times hafi í viðtali spurt hann um atvik sem varð að lokinni beinni útsendingu á RÚV á dögunum.

Blaðamaðurinn hafi spurt hann hvers vegna hann hefði nýverið yfirgefið sjónvarpskappræður án þess að taka í hendur andstæðinga sinna en eftir að útsendingu lauk mátti sjá Sigmund Davíð ganga rakleiðis út úr mynd.

Sigmundur Davíð greinir frá því að honum hafi einfaldlega, eftir mikla vatnsdrykkju, verið mál. Að því erindi búnu hafi hann kvatt alla sem hann rakst á „með virktum“.

Sigmundur segir í færslunni að fyrir skömmu hafi verið talsverð umræða í pólitíkinni um að menn stunduðu það að reyna að koma sögum frá Íslandi í erlenda fjölmiðla, til að hafa áhrif á gang mála. „Pólitíkin tekur stundum á sig skondnar myndir,“ segir hann.

Sigmundur Davíð gengur úr setti.
Sigmundur Davíð gengur úr setti. Skjáskot/RÚV



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert