Þriðji fundur flugvirkja árangurslaus

Flugvirkjar að störfum.
Flugvirkjar að störfum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þriðji fundur Flugvirkjafélags Íslands og SA vegna Icelandair var haldinn hjá ríkissáttasemjara í morgun og var hann árangurslaus, að sögn Óskars Einarssonar, formanns Flugvirkjafélags Íslands.

Hann segir að enn sé verið að ræða málin og lítið sé að frétta.

Lögbundinn fundur hefur verið boðaður innan hálfs mánaðar hjá ríkissáttasemjara nema önnur krafa komi fram frá viðræðuaðilum.

Spurður hvort til greina komi að flugvirkjar grípi til verkfallsaðgerða segir Óskar svo ekki vera og að þeir séu enn þá rólegir.

Samningar flugvirkja við Icelandair losnuðu 31. ágúst og var kjaraviðræðunum vísað til ríkissáttasemjara 8. september.

Alls starfa 280 flugvirkjar hjá Icelandair og í heildina eru rúmlega 500 flugvirkjar í Flugvirkjafélagi Íslands.

Flugmenn funda á morgun

Samningar hafa heldur ekki náðst í kjaraviðræðum Félags íslenskra atvinnuflugmanna og SA vegna Icelandair. Þriðji fundurinn í þeirri deilu verður haldinn hjá ríkissáttasemjara á morgun.

Alls eru á milli 800 til 900 virkir félagar í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna. Þar af störfuðu 530 hjá Icelandair í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert