77% andvíg lögbanni á fréttir fjölmiðla

MMR kannaði afstöðu Íslendinga til lögbanns sýslumannsins í Reykjavík á …
MMR kannaði afstöðu Íslendinga til lögbanns sýslumannsins í Reykjavík á fréttaflutning fjölmiðla upp úr gögnum innan úr Glitni sem snúið hafa að viðskiptum Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra dagana fyrir hrun. mbl.is/Eggert

Meirihluti Íslendinga, eða 77%, er andvígur lögbanni sýslumannsins í Reykjavík á fréttaflutning fjölmiðla upp úr gögnum innan úr Glitni. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar MMR. Fram kemur að tæp 64% séu mjög andvíg lögbanninu og 13% frekar andvíg.

Einungis 11,4% Íslendinga voru fylgjandi lögbanninu og kváðust 11,6% hvorki fylgjandi né andvíg.

Þegar munur á afstöðu er skoðaður eftir lýðfræðihópum kom í ljós að stjórnendur og æðstu embættismenn með milljón eða meira á mánuði voru líklegri en aðrir hópar til að vera fylgjandi lögbanninu, að því er segir í tilkynningu MMR.

Einnig mátti sjá að stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins var líklegra til að segjast fylgjandi lögbanninu, borið saman við aðra stjórnmálaflokka. Þannig voru 34% af stuðningsfólki Sjálfstæðisflokksins fylgjandi lögbanninu, á meðan enginn af stuðningfólki Vinstri grænna var fylgjandi því. Af stuðningsfólki annarra flokka kom í ljós að 18% af stuðningsfólki Framsóknar kváðust fylgjandi, 5% af stuðningsfólki Viðreisnar, 4% af stuðningsfólki Samfylkingarinnar og 1% af stuðningsfólki Pírata kváðust fylgjandi lögbanni sýslumannsins í Reykjavík á fréttaflutning fjölmiðla, segir MMR enn fremur.

Könnunin var framkvæmd dagana 17. til 18. október 2017 og var heildarfjöldi svarenda 1.007 einstaklingar, 18 ára og eldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert