Ókeypis menntun keppikefli

Frambjóðendur á fundinum voru beðnir um að skrifa á blað …
Frambjóðendur á fundinum voru beðnir um að skrifa á blað og sýna salnum hversu há þeim fyndist að grunnlaun kennara ættu að vera. mbl.is/Golli

„Það á að vera keppikefli okkar að menntun og skólakerfi sé nemendum og foreldrum að kostnaðarlausu frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla,“ sagði Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, á opnum fundi Kennarasambandsins og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands með frambjóðendum stjórnmálaflokkanna.

Þórður talaði um nauðsyn þess að auka nýliðun kennara með skilgreindum aðgerðum í samstarfi við menntamálaráðuneytið, sveitarfélögin, Kennarasambandið og háskóla sem mennta kennara en í því samhengi yrði að horfa á laun kennara.

„Í þessu sambandi er ekki hægt að horfa framhjá því að gera þarf laun kennara samkeppnishæf við laun annarra háskólamenntaðra sérfræðinga og stórbæta þar starfsaðstæður kennara og skólastjórnenda til að þróa menntun og skólastarf til hagsbóta fyrir nemendur og samfélagið. Góð og gegn menntun fyrir alla Íslendinga er fjöregg þjóðarinnar,“ sagði Þórður.

Fjármögnun loforða ekki rædd

Aðalbjörn Sigurðsson, útgáfu- og kynningarstjóri Kennarasambandsins, var fundarstjóri. Í upphafi fundarins bað hann frambjóðendur um að halda sig við skólamál. Hann sagðist treysta því að ef frambjóðandi lofaði einhverju á fundinum væri búið að tryggja fjármagnið. „Við ætlum ekki að eyða mestum tíma í að ræða skattahækkanir,“ sagði Aðalbjörn við upphaf fundarins og hlaut lófaklapp fyrir. Frambjóðendur fengu þrjár mínútur hver til að kynna stefnumál sín í menntamálum. Það var samhljómur meðal allra frambjóðenda um að það þyrfti að auka fjármagn í menntakerfið. Mikið var rætt um styttingu framhaldsskólanna og langvarandi starfsmannavanda leikskólanna.

Grunnlaun á bilinu 480-700 þús.

Aðalbjörn bað alla frambjóðendur um að rita á blað hversu há þeim fyndist að grunnlaun kennara ættu að vera og sýna svo salnum. Loforð frambjóðenda um grunnlaun voru á bilinu 480 þúsund á mánuði til 700 þúsund. Kolfinna Jóhannesdóttir, í 3. sæti á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi bauð hæst, eða 700 þúsund krónur. Páll Valur Björnsson í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður og Kjartan Þór Ragnarsson í 2. sæti á lista Framsóknar í sama kjördæmi buðu næsthæst en báðir vildu að grunnlaun myndu hækka upp í 650 þúsund krónur. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var með lægstu töluna á lofti, 480 þúsund í grunnlaun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert