Slitnaði upp úr í kjaraviðræðum flugmanna

Ekki náðist árangur á fundinum í dag og nýr fundur …
Ekki náðist árangur á fundinum í dag og nýr fundur hefur ekki verið boðaður. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nú fyrir skömmu slitnaði upp úr viðræðum í kjaradeilu á milli Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair hjá ríkissáttasemjara. Þetta staðfestir Jón Þór Þorvaldsson, formaður samninganefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna í samtali við mbl.is.

„Það slitnaði uppúr þessum viðræðum sem við erum búnir að vera í og það er ekki búið að boða annan fund,“ segir Jón Þór.

Síðasti fundur í deilunni fór fram í síðustu viku og þótti sá fundur nokkuð góður. Jón Þór sagði eftir þann fund að verið væri að kasta á milli hugmyndum og að báðir aðilar hefðu fengið heimavinnu. Þær hugmyndir sem voru upp á borðum þá gengu hins vegar ekki eftir.

„Það náðist ekki árangur í því. Það var búið að leggja miklu vinnu í ákveðna hluti af okkar hálfu, en það náðist ekki saman um þá. Nú þurfa menn bara að leggjast undir og hugsa næstu skref.“

Jón Þór segist gera ráð fyrir að ríkissáttasemjari muni boða til næsta fundar innan tveggja vikna, líkt og lög kveða á um, nema eitthvað komi upp hjá samningsaðilum sem þyki gefa ástæðu til að taka upp þráðinn að nýju.

Samningur Félags íslenskra atvinnuflugmanna við Icelandair rann út þann 30. september síðastliðinn, en deil­unni var vísað til rík­is­sátta­semj­ara 26. sept­em­ber og var fyrsti sátta­fund­ur­ hald­inn 2. októ­ber. Þetta var þriðji fundur samningsaðila sem fór fram í dag.

Alls eru á milli 800 til 900 virk­ir fé­lag­ar í Fé­lagi ís­lenskra at­vinnuflug­manna. Þar af störfuðu 530 hjá Icelanda­ir í sum­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert