Snýst um jafna málsmeðferð

Freyja Haraldsdóttir á þingi en hún var varaþingmaður Bjartrar framtíðar …
Freyja Haraldsdóttir á þingi en hún var varaþingmaður Bjartrar framtíðar 2013-2016. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Málið snýst ekki um hvort Freyja geti orðið fósturforeldri eða ekki heldur snýst þetta um hvort málsmeðferðin hafi verið eins í hennar máli og öðrum þar sem ófatlaðir einstaklingar eiga í hlut,“ segir Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður baráttukonunnar Freyju Haraldsdóttur.

Freyja, fyrrverandi varaþingmaður Bjartrar framtíðar, hef­ur stefnt Barna­vernd­ar­stofu vegna ákvörðunar stofn­un­ar­inn­ar um að neita henni um að ger­ast fóst­ur­for­eldri.  

Sigrún bendir á að Barnaverndarstofa hafi ekki verið með nægilega ítarleg gögn til að hafna umsókn Freyju. Hún vísar meðal annars til þess að umsókn Freyju hafi verið hafnað áður en henni gafst kostur á að sækja námskeið fyrir fósturforeldra á vegum Barnaverndarstofu. Samkvæmt 9. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 ber umsækjendum að sækja námskeiðið áður en leyfi er veitt. Á því námskeiði meta meðal annars leiðbeinendur hæfni og möguleika þeirra sem sitja það til að gerast fósturforeldrar.     

Fyrsta skrefið í að sækja um að verða fósturforeldri er að leggja inn umsókn til Barnaverndarstofu og annað skrefið er að óskað er eftir umsögn hjá fjölskylduráði viðkomandi sveitarfélags. Freyja gerði það og fékk jákvæða umsögn frá fjölskylduráði Garðabæjar. Næst lagði hún fram beiðni til Barnaverndarstofu um setu á umræddu matsnámskeiði en í stað þess að heimila slíkt tók Barnaverndarstofa þá ákvörðun að úrskurða í máli hennar á þessum tímapunkti. Niðurstaða þess úrskurðar var að hafna umsókn Freyju. Þessari synjun var skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti synjunina. 

Sigrún bendir á að ákvörðunin um synjunina sé einkennileg meðal annars í ljósi jákvæðrar umsagnar fjölskylduráðs Garðabæjar. 

Fóstur getur verið tvenns konar, varanlegt eða tímabundið. Í umsókn sinni fór Freyja ekki fram á varanlegt fóstur.    

Allir borgara eiga rétt á sömu athugun

Samkvæmt reglugerð um ráðstöfun barna í fóstur metur Barnaverndarstofa „að fenginni umsögn barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi væntanlegra fósturforeldra, hæfni þeirra til að taka barn í fóstur. Áður en barnaverndarnefnd gefur umsögn skal hún kanna hagi og aðstæður væntanlegra fósturforeldra með tilliti til töku fósturbarns.“ Þetta segir í reglugerðinni sem er inn á vef félagsmálaráðuneytis. 

„Barnaverndarnefnd ber að velja fósturforeldra af kostgæfni og með tilliti til þarfa og hagsmuna barnsins sem í hlut á [...] Við val á fósturforeldrum skal miða að því að tryggja stöðugleika í lífi barns og að röskun á högum þess verði sem minnst.“ Þetta segir í  67. gr. Barnaverndarlaga um val á fósturforeldrum. 

„Allir borgara eiga rétt á að fá sömu athugun. Við teljum að stjórnvöld hafi ekki gætt nægilega að rannsóknarskyldu sinni við meðferð umsóknar hennar,“ segir Sigrún. 

Mál Freyju gegn Barnaverndarstofu er á fyrstu stigum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert