Stórauknar tekjur og eignir

Fasteignir voru metnar á tæpa 3.596 milljarða en skuldir af …
Fasteignir voru metnar á tæpa 3.596 milljarða en skuldir af íbúðarhúsnæði jukust um 28,9 milljlarða. mbl.is/Ómar Óskarsson

Laun og starfstengdar greiðslur fjölskyldna og einstaklinga hækkuðu mikið í fyrra og voru 84 milljörðum kr. hærri en árið á undan. Ef þessi hækkun er borin saman við launagreiðslur árið 2009 er um 11% vöxt raunlauna að ræða í landinu.

Þetta kemur fram í ítarlegri úttekt Páls Kolbeins, rekstrarhagfræðings hjá ríkisskattstjóra, á álagningu einstaklinga 2017, sem birt er í Tíund, blaði embættisins, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

72,3% þeirra sem voru með tekjur greiddu tekjuskatt, sem er hærra hlutfall en hefur sést í langan tíma. Hins vegar jukust skuldir vegna íbúðarhúsnæðis nú í fyrsta skipti frá hruni um 28,9 milljarða á árinu.

„Það er ekki neinum blöðum um það að fletta að árið 2016 ríkti aftur góðæri í landinu sem minnti að mörgu leyti á ástandið sem hér skapaðist fyrir tæpum áratug, rétt áður en allt féll. Útlendingar streyma nú til landsins, tekjur hafa aukist og eignir hafa hækkað í verði,“ segir í grein Páls.

Erlendir ríkisborgarar hafa aldrei verið fleiri og eiga sífellt stærri hlut í skattheimtunni, en fram kemur að rétt um einn af hverjum átta framteljendum var erlendur ríkisborgari árið 2016. Stór hluti þeirra er á aldursbilinu 21 til 30 ára eða 22,7% allra framteljenda í þeim aldurshópi.

Páll segir að líkast til sé þessi mikla fjölgun tímabundin ,,en ef erlendum ríkisborgurum á skattgrunnskrá heldur áfram að fjölga um 27,3% á hverju ári eins og árið 2016 verða þeir orðnir fleiri en Íslendingar á grunnskrá eftir rúm átta ár“.

Innstæður einstaklinga í bönkum hafa vaxið frá árinu 2013 og stóðu þær í um 556 milljörðum í lok síðasta árs og höfðu þá vaxið um 36,5 milljarða frá árinu áður.

„Þá áttu börn rúman 17,1 milljarð á bankareikningum og fengu þau rúmar 600 milljónir í vexti af þessum innstæðum,“ segir í greininni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert