Telur um embættisafglöp að ræða

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, og Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður …
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, og Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Stundarinnar. mbl.is/Baldur

„Í raun og veru er um að ræða aðför að lýðræðinu. Það er stóralvarlegt mál og ekki hægt að gera of lítið úr því,“ sagði Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun.

Hjálmar sagði að setja yrði til hliðar hvaða persónur málið liti að, hvaða flokkar eða opinberu einstaklingar væru til umræðu og gæði þeirrar umfjöllunar sem undir væri. Ef allt þetta væri sett til hliðar þá stæði eftir að um væri að ræða aðför að lýðræðinu. „Þetta snýst um það að í aðdraganda kosninga kemur fulltrúi framkvæmdavaldsins og reynir að stoppa umfjöllun á mjög svo hæpnum forsendum, svo vægt sé til orða tekið.“

Hann sagði að engar brýnar aðstæður væru uppi til að stoppa umfjöllunina, sem hefði staðið yfir í tvær vikur. „Það eru kosningar framundan. Í því samhengi er þetta ennþá alvarlegra.“ Hann sagði að Alþingi hlyti að skoða hvort ekki þyrfti dómara til að taka ákvörðun um svona hluti „en ekki löglærðir fulltrúar hjá sýslumannsembættinu í landinu.“

Hjálmar sagði að það væri galið að stöðva lýðræðislega umræðu í aðdraganda þingkosninga. „Að mínu viti eru um embættisafglöp að ræða. Við verðum nánast að athlægi erlendis.“ Hann benti á að um væri að ræða gjörð stjórnvalds sem virtist ekki vera hægt að breyta eða endurskoða. Það væri ófært ástand. „Að mínu viti þarf að vera dómstóll sem tekur þessa ákvörðun.“

Að mínu viti er um embættisafglöp að ræða. Í aðdraganda þingkosninga að stöðva lýðræðislega umræðu er fullkomlega galið. Við verðum nánast að athlægi erlendis. Gjörð sem virðist ekki vera hægt að breyta eða endurskoða. Ófært ástand. Að mínu viti þarf að vera dómstóll sem tekur þessa ákvörðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert