„Ég veit ekkert hvað stendur í þessu skjali“

Brynjar Kvaran, Þórólfur Halldórsson og Þuríður Árnadóttir, á fundinum í …
Brynjar Kvaran, Þórólfur Halldórsson og Þuríður Árnadóttir, á fundinum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, var á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun afar ósáttur við þau svör Þórólfs Halldórssonar, sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu, að hann hefði hvorki séð né kynnt sér afstöðu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Fulltrúi ÖSE í gær beindi því til íslenskra stjórnvalda að þau stilltu sig um að setja frekari hömlur á tjáningarfrelsi fjölmiðla og afléttu því banni sem þegar hefði verið lagt á þá.

Þórólfur sagði á fundinum að sýslumanni hefði ekki borist skilaboðin frá ÖSE. „ÖSE hefur yfirsést að senda sýslumanni þetta plagg. Ég veit ekkert hvað stendur í þessu skjali,“ sagði hann. Við þetta svar var Jón Þór afar ósáttur, enda hefði málið verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðasta sólarhringinn. Jón Þór fann að því að sýslumaðurinn hefði ekki kynnt sér efni málsins sem hann væri kominn til að ræða á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Eftir nokkur orðaskipti tók fundarstjóri orðið af Jóni Þór.

Gat ekki tjáð sig um þetta tiltekna mál

Þórólfur hóf mál sitt á fundinum í morgun að segja að sýslumannsembættið og starfsmenn þess væru bundnir ríkum trúnaðarskyldu og gætu því ekki rætt það mál, lögbann á Stundina og Reykjavík Media, sem til umfjöllunar er á fundinum. Allt sem embættið teldi sig geta sagt um umrætt mál hefði komið fram í yfirlýsingu frá sýslumanni.

Þuríður Árnadóttir, sviðsstjóri fjármála- og þjónustusviðs, benti á að í lögum um lögbann væru skýrar málsmeðferðarreglur. Eftir þeim væri farið. Þórólfur sagði að embættið færi að þeim lögum sem því væri sett, frá Alþingi. „Það er okkar leiðarvísir. Þetta tiltekna mál er á leiðinni fyrir dómstóla og það eru þeir sem eiga næsta snertiflöt á þessu máli af hálfu hins opinbera.“ Fram kom að málinu væri lokið af hálfu sýslumannsembættisins.

Jón Þór var mjög ósáttur við svör sýslumanns um skilaboðin …
Jón Þór var mjög ósáttur við svör sýslumanns um skilaboðin frá ÖSE. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Kvaran, sviðsstjóri fullnustusviðs, sagði á fundinum að lögbannsbeiðnir kröfðust skjótrar afgreiðslu og beindust sem aðgerðum sem væru hafnar eða yfirvofandi. Sömu reglur giltu um allar tegundir lögbanna.

Aðstæður í þjóðfélaginu skipta ekki máli

Sýslumaður var meðal annars spurður hvort sýslumannsembættið færi að leiðbeiningum mannréttindadómstóls Evrópu, um tjáningarfrelsi. Sýslumaður svaraði því til að embættið færi að þeim lögum sem Alþingi setti.

Þuríður benti á að það skipti engu mála hvaða aðila um ræddi þegar lögbannsbeiðni væri lögð fram, eða hvaða aðstæður væru uppi í þjóðfélaginu. Ef orðið væri við lögbannskröfu gilti það í viku og innan þess tímaramma gæti gerðarbeiðandi fengið lögbannið staðfest hjá dómstóli. Að öðrum kosti félli það niður.

Stundin getur krafist endurupptöku

Á fundinum kom fram að aðilar máls, í þessu tilviki Stundin, Reykjavík Media og Glitnir HoldCo gætu lagt fram beiðni um endurupptöku. Það gæti sýslumaður sjálfur ekki gert. Þá gæti gerðarþoli krafist skaðabóta ef svo bæri undir.

Þórólfur var spurður um hvers vegna hann hefði tekið fram að hann hefði fram í yfirlýsingu að hann bæri traust til lögfræðinga sinna á fullnustusviði. Hann svaraði því til að starfsmenn embættisins hefðu orðið fyrir ómaklegum ásökunum, sem þeir tækju nærri sér. Fjallað hefði verið „ótæpilega“ um þá starfsmenn sem að þessu máli hefðu komið. Það væri ekki svo að sýslumaður stimplaði hvert skjal, sem frá sýslumannsembættinu færi. Hann treysti þeim starfsmönnum sem um málin fjölluðu hjá embættinu.

Flestum lögbannsbeiðnum hafnað

Brynjar Kvaran sagði á fundinum að 54 lögbannsbeiðnir hefðu borist sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu síðan embættið varð til. Þar af hafi í fjórtán skipti lögbann verið sett á. Hinum málunum hafi verið vísað frá.

Brynjar benti á að ekki væri verið að leggja lögbann við umfjöllun, heldur að notaðar væru upplýsingar sem talið væri að væru illa fengnar og að það færi í bága við lög að nota þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert