Ákærðir fyrir 125 milljóna skattsvik

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Embætti héraðssaksóknara hefur gefið út ákæru á hendur tveimur karlmönnum á fimmtugsaldri fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og almennum hegningarlögum fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti og opinberum gjöldum upp á samtals 125 milljónir króna á árunum 2011 til 2013.

Mönnum er gefið að sök að hafa ekki staðið í skilum á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna, ásamt því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum og skilagreinum tveggja félaga í þeirra eigu. Þá er annar mannanna einnig ákærður fyrir skilasvik.

Öðrum mannanna er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti upp á rúmar 18 milljónir króna og staðgreiðslu opinberra gjalda upp á rúmar 6 milljónir.

Hinum manninum er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti upp á tæpar 32 milljónir króna og staðgreiðslu opinberra gjalda upp á tæpar 69 milljónir króna. Hann er einnig ákærður fyrir skilasvik með því að hafa ráðstafað veðsettum fjármunum upp á rúmar 50 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert