Creditinfo braut gegn persónuverndarlögum

Höfuðstöðvar Creditinfo í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Creditinfo í Reykjavík. Morgunblaðið/Ernir

Persónuvernd hefur úrskurðað að Creditinfo hafi verið óheimilt að notast við upplýsingar um uppflettingar á vanskilaskrá við gerð skýrslu um lánshæfi einstaklinga. Fyrirtækinu var á hinn bóginn heimilt að nýta upplýsingar úr skattskrá og upplýsingar um að kvartandi hafi verið á vanskilaskrá.

Í úrskurðinum segir að kvartað hafi verið yfir gerð skýrslna um lánshæfi einstaklinga hjá Creditinfo Lánstrausti sem seldar eru viðskiptavinum fyrirtækisins en í kvörtuninni var vitnað til upplýsinga á vefsíðu fyrirtækisins þess efnis að við gerð slíkra skýrslna séu notaðar upplýsingar um fyrrum færslur á skrá þess um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga, uppflettingar innheimtuaðila í þeirri skrá og á skýrslum um lánshæfi, auk upplýsinga úr skattskrá. 

Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að notkun upplýsinga úr skattskrá og upplýsinga um færslur sem afskráðar hafa verið af vanskilaskrá væru í samræmi við lög og reglur og þar af leiðandi heimil. Aftur á mót komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að vinnsla upplýsinga um uppflettingar í skrá um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga væri óheimil.

Í því samhengi er vísað til starfsleyfis Creditinfo sem var í gildi þegar kvörtun bars en þar var kveðið á um að fyrirtækinu bæri að tryggja rekjanleika upplfettinga þannig að í hvert skipti sem uppfletting ætti sér stað, eða fyrirspurn væri gerð, skráðist hver gerði hana, hvaða upplýsingar voru unnar, hvernig og hvenær. Þá var mælt fyrir um tveggja ára varðveislutíma þessara upplýsinga.

Þessi skráning er jafnan kölluð aðgerðarskráning og er ætlað að tryggja öryggi persónuupplýsinga þannig að rekjanleiki þeirra sé tryggður til að sporna við uppflettingum án nægs tilefnis og gera það kleift að bregðast við þeim. Á það reyndi hvort að notkun þessara upplýsinga við gerð skýrslna um lánshæfi teldist fara fram í tilgangi sem samrýmist upphaflegum tilgangi. Í því samhengi leit Persónuvernd til þess að aðgerðarskráning geti leitt til þess að hjá viðkomandi ábyrgðaraðila skráist upplýsingar sem eru umfram þær sem að öllu jöfnu mætti gera ráð fyrir að hann byggi yfir. Þá segir í úrskurðinum um væri að ræða upplýsingar um að krafa á hendur einstaklingi sé í vanskilainnheimtu en fram kom af hálfu Creditinfo í málinu að það séu fyrst og fremst uppflettingar innheimtuaðila sem hafi áhrif á niðurstöður skýrslna um lánshæfi. Slíkir aðilar eru samkvæmt lögum bundnir þagnarskyldu sem leiðir til þess að Creditinfo ætti ekki að búa yfir upplýsingum um vanskilainnheimtu á hendur einstaklingi nema fyrir þá sök að samkvæmt aðgerðarskráningu hafi innheimtuaðili flett honum upp í umræddri skrá. Í því ljósi taldi Persónuvernd að notkun Creditinfo á upplýsingunum samræmdistekki ákvæðum laga um persónuvernd um bann við vinnslu persónuupplýsinga í tilgani sem ósamrýmanlegur er upphaflegum vinnslutilgangi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert