Ísland þarf á fjölbreytninni að halda

Mynd/Auðunn Níelsson

„Við lítum á þetta sem annan stærsta viðburðinn í sögu skólans síðan hann var stofnaður. Skólinn var stofnaður fyrir 30 árum og nú erum við komin með doktorsnámið. Þetta eru tveir stærstu viðburðirnir.“ Þetta segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, en í dag undirritaði mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, heimild háskólans til að bjóða upp á doktorsnám á fræðasviðum heilbrigðisvísinda, hug- og félagsvísinda og viðskipta- og raunvísinda.

Eyjólfur var hinn kátasti þegar blaðmaður sló á þráðinn til hans, enda langþráður draumur að rætast. Hann segir að námsgráður sem boðið verði upp á, til dæmis í norðurslóða- og byggðafræðum og þverfaglegum heilbrigðisvísindum, muni auka flóru náms á Íslandi. „Við erum ekki að koma fram með eitthvað nýtt sem er sambærilegt við það sem verið að gera annars staðar á Íslandi, heldur erum við að auka fjölbreytnina og ég held að Ísland þurfi á því að halda.“

Tvö ár eru síðan umsókn um heimild til að bjóða upp á doktorsnám var lögð inn til ráðuneytisins, en aðdragandinn að umsókninni var langur. Vinna við sjálfa umsóknina tók þrjú ár.

Hafa verið í þjálfunarbúðum síðustu ár

„Þetta er búið að vera í fullri vinnslu í fimm ár og í raun eru tíu ár síðan farið var að velta fyrir sér að hefja þetta ferli. Árið 2011 var gerð stefnumótun fyrir Háskólann á Akureyri fyrir árin 2012 til 2017 og í þeirri stefnumótun var að hefja doktorsnám á tilteknum sérsviðum okkar lykilaðgerð.“

Erlend matsnefnd á vegum Gæðaráðs háskólanna hefur tekið út skólann og það nám er boðið upp á og segir Eyjólfur starfsfólk skólans mjög ánægt með niðurstöðurnar. Þeim hafi verið skilað til ráðuneytisins í vor og nú loksins liggi niðurstaða ráðuneytisins fyrir.

Mynd/Auðunn Níelsson

Hann segir starfsfólk skólans hafa verið að þjálfa sig í að færa stofnunina upp á þetta stig síðustu árin. „Við höfum tekið þátt í doktorsnámi, ýmist sem aðalleiðbeinendur eða meðleiðbendur rúmlega 40 doktorsnema á síðustu 5 árum. Það virkar þannig að nemandinn er skráður við annan skóla en stundar sitt nám að hluta til eða öllu leyti hjá okkur. Við getum sagt að það hafi verið þjálfunarbúðir fyrir stofnunina til að sýna hvað hún gæti gert. Það var mikilvægur hluti af undirbúningsferlinu okkar að geta sýnt fram á að við hefðum verið að vinna á þessu sviði, og að rannsóknir okkar hafi verið á alþjóðlegum mælikvarða fyllilega sambærilegar.“

Auðveldar aðgengi að rannsóknarfé 

Eyjólfur segir þetta breyta mjög miklu fyrir stofnunina sem slíka og í raun allt samfélagið.„Þetta breytir því númer eitt, tvö og þrjú að núna getum við haft þessa nemendur hjá okkur sem hafa verið í doktorsnámi og tengdir okkur. Það auðveldar okkur aðgengi að rannsóknarfé til framtíðar og umfram allt þá auðveldar það samstarf við erlendar vísindastofnanir. Þekking í dag er orðin svo alþjóðleg og sérhæfð að þú þarft að vera hluti af alþjóðlegu teymi til að hafa aðgengi að nýjustu þekkingu.“

Hann segir Háskólann á Akureyri nú hjálpað samfélaginu fyrir norðan og um allt land í að þróast í átt að fjórðu tæknibyltingunni. „Nú getum við haft áhrif á okkar nærsamfélag, til að tryggja að landið allt sé að taka þátt í þessu, en ekki bara takmarkaður hluti þess.“

Áfanganum verður fagnað um helgina en á mánudag verður strax farið í að hrinda verkefninu í framkvæmd, að sögn Eyjólfs. Við erum með ítarlega áætlun og byrjum strax á mánudaginn við að innleiða verkefnið. Það er langhlaup. Það tekur fimm til tíu ár að byggja upp það umhverfi sem þarf til að hér verði öflugt doktorsnám. Við horfum til samstarfs við innlendar og erlendar stofnanir til að koma að því ferli.“

Mynd/Auðunn Níelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert