Krefjast ekki lögbanns á Guardian

Glitnir HoldCo hefur átt í samskiptum við The Guardian.
Glitnir HoldCo hefur átt í samskiptum við The Guardian. mbl.is/Frikki

„Lögmenn eru búnir að hafa samband við Guardian. Guardian er búið að svara og við erum sáttir við þau svör,“ segir Ingólfur Hauksson, forstjóri Glitnis HoldCo, í samtali við mbl.is.

Sýslumaður lagði á mánudag lögbann á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media á umfjöllun upp úr gögnum sem þaðan eru fengin. Gefið var í skyn að til stæði að krefjast lögbanns á hendur The Guardian, sem einnig hefur haft gögnin undir höndum, og átt í samstarfi við íslensku fjölmiðlana tvo. Ingólfur segir að af lögbanninu verði ekki.

Ingólfur Hauksson, forstjóri Glitnis HoldCo.
Ingólfur Hauksson, forstjóri Glitnis HoldCo.

Hann segir ofmælt að fullyrða, eins og gert var í Fréttablaðinu í dag, að tryggingafélagið hafi ráðlagt Glitni HoldCo að fara fram á lögbannið á Íslandi. Hann segir að það sé fyrst og fremst stjórn félagsins sem taki svona ákvörðun. „Auðvitað má segja tryggingafélagið ráðleggi okkur að gera allt til að lágmarka líkurnar á því að það komi upp einhver claim [krafa, innsk.blm.] út af þessum málum. Þetta er gert með stuðningi frá þeim og er liður í að lágmarka mögulegt tjón,“ segir Ingólfur en fram hefur komið að félagið óttist skaðabótaskyldu vegna upplýsingalekans.

Hann vill aðspurður ekki gefa upp nafn tryggingafélagsins og segir að honum finnist það ekki skipta máli.

Forsíða Stundarinnar í dag.
Forsíða Stundarinnar í dag.

Hann segir að lögmenn Glitnis HoldCo hafi verið í sambandi við lögmenn The Guardian og að Glitinsmenn séu sáttir við svör þeirra. Hann vill ekki fara nánar út í hvað þeirra fór á milli.

Aðspurður vill hann lítið tjá sig um umræðuna í samfélaginu, í kjölfar lögbannsins, um að verið sé að skerða tjáningarfrelsi blaðamanna. „Mér finnst undarlegt að þeir sem steli gögnum geti hagnast á því; að þjófar hagnist á svona málum. Sú afstaða að það sé í lagi – ég skil hana ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert