Nota tölfræði beint í stefnumótun

Susanne Nijman, yfirmaður hjá neytenda og öryggisstofnun Hollands flutti fyrirlestur …
Susanne Nijman, yfirmaður hjá neytenda og öryggisstofnun Hollands flutti fyrirlestur um málefni stofnunarinnar á slysavarnarþingi í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Síðustu 20 ára hefur verið unnið markvisst að því að safna saman upplýsingum um slys af ýmsum tegundum hjá Neytenda- og öryggisstofnun Hollands og þeim þannig komið fyrir að auðvelt er að sækja tölfræði í gagnagrunninn. Með þessu hefur tekist að finna hvar er mesta þörfin á að setja fjármuni og krafta í slysavarnir.

Susanne Nijman sem er yfirmaður hjá Neytenda- og öryggisstofnun Hollands, hélt erindi á ráðstefnunni Slysavarnir á Grand hótel í dag og fór þar yfir það starf sem unnið er í þessum málum í Hollandi.

Nýtist við kostnaðargreiningu og stefnumótun í slysamálum

Hún sagði stofnunina fá áreiðanlegar upplýsingar um öll dauðsföll og alvarleg slys sem komi á borð sjúkrahúsa. Skráning sé einnig talsvert góð yfir almenna komu þeirra sem slasa sig og koma á slysadeild. Þá geti fólk auk þess sent inn upplýsingar um slys og stofnunin geri auk þess ýmsar kannanir tengdar slysum. Með þessu móti fáist mjög víðtæk sýn yfir öll slysamál í landinu.

Út frá þessum upplýsingum hefur stofnunin meðal annars unnið ýmsar kostnaðargreiningar fyrir stjórnvöld sem nýtast við stefnumótun.

Fá greitt fyrir hverja slysaskýrslu

Nijman sagði að það skipti miklu máli að þær stofnanir sem tækju þátt í að skila inn gögnum sæju hag í fyrirkomulaginu og þannig væri það í dag í Hollandi. Sjúkrahús fengju þannig greitt fyrir hverja slysaskýrslu sem væri skilað og horfðu einnig á það sem samfélagslega ábyrgð sína að standa sig í þessum efnum.

Samtals fær Neytenda- og öryggisstofnunin um 80 þúsund skýrslur á ári, en þær ná frá vinnuslysum og umferðaslysum yfir í ofbeldi og sjálfskaða.

Föll meðal eldra fólks aukist mikið

Í máli sínu sagði Nijman að það hafi meðal annars komið fram í tölum stofnunarinnar að fjöldi slysa meðal eldra fólks þar sem það fellur hafi aukist mikið undanfarin ár. Það væri meðal annars vegna þess að fólk lifi lengur í dag en áður og búi í auknum mæli lengur á eigin heimili. Sagði hún þetta því áherslupunkt í slysavörnum.

Þá sýndi Nijman frá auglýsingaherferð stofnunarinnar sem hafi átt að skapa vitundarvakningu meðal foreldra ungra barna um slysahættu allt í kringum börnin. Sérstök áhersla var á eiturefni ýmiskonar sem finna má á flestum heimilum. Var farið í þessa herferð eftir að í ljós kom að 7.500 slík eiturefnaslys urðu ár hvert í Hollandi.

Erfitt að greina slysin hér á landi

Til samanburðar kom fram að um 1 af hverju 5 börnum á grunnskólaaldri hér á landi verður fyrir einhverskonar slysi á hverju ári. Það reynist aftur á móti ómögulegt að finna nánari upplýsingar um hvers konar slys það eru og gæti því verið um að ræða eiturefnaslys eða íþróttaslys og erfitt getur reynst að ákveða hvar eigi að styrkja slysavarnirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert