„Þetta er klárlega barningur“

Hér er mynd úr skóginum við Tumastaði í Fljótshlíð, þar …
Hér er mynd úr skóginum við Tumastaði í Fljótshlíð, þar sem Skógrækt ríkisins hefur ræktað tré frá árinu 1944. mbl.is/ Kristinn Ingvarsson

„Markmiðið núna er að eftir 50 ár verði hlutfall skógar komið upp í 5%,“ hefur New York Times eftir Sæmundi Þorvaldssyni, verkefnisstjóra hjá Skógræktinni, í ítarlegri grein um skógrækt á Íslandi. Yfirskrift greinarinnar er á þá leið að víkingar hafi eytt skógunum og því velt upp hvort Íslendingar geti ræktað þá upp á nýjan leik.

Fram kemur í greininni að þegar víkingar hafi sest að á Íslandi, fyrir meira en þúsund árum, hafi þeir höggvið nær allan skóg sem á landinu var. Nú takist Íslendingar á við það verkefni að rækta þá upp á nýjan leik, til að binda jarðveg, styðja við landbúnað og berjast við veðurfarsbreytingar.

Með greininni eru birtar margar fallegar myndir og stutt myndskeið af íslensku landslagi. Fram kemur að skógar þeki nú um 1% Íslands og að það sé seinlegt og nánast endalaust verkefni að auka það hlutfall sem einhverju nemi.

Haft er efit Jóni Ásgeiri Jónssyni skógfræðingi að þrátt fyrir að þremur milljónum tjáa hafi verið plantað árlega síðustu árin gangi verkefnið hægt. Hlutfall skóghafi varla aukist sem nokkru nemi síðastliðin hundrað ár. „Þetta er klárlega barningur,“ segir hann. „Við höfum kannski grætt hálft prósent síðastliðna öld.“

Greinina má hér lesa í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert