Viðgerð á Herjólfi tefst enn

Ekki verður farið í viðgerðir á Herjólfi í nóvember líkt …
Ekki verður farið í viðgerðir á Herjólfi í nóvember líkt og til stóð. mbl.is/Sigurður Bogi

Herjólfur fer ekki í viðgerð í nóvember líkt og til stóð, en fram kemur á vef Vegagerðarinnar að Vegagerðin hafi gengið frá leigu á norsku ferjunni BODÖ áður en í ljós kom að rekstaraðili Herjólfs, Eimskip, getur ekki staðið við þá áætlun að gera við Herjólf á þeim tíma sem ráðgert var.

Bendir Vegagerðin á að þetta sé í annað skipti sem viðgerð á Herjólfi hafi tafist, fyrst í lok september og nú aftur í nóvember nk. 

Vegagerðin hafði leigt norsku ferjuna Röst til að sinna siglingum Herjólfs í september, sem frá varð að hverfa þar sem varahlutirnir voru þá heldur ekki tilbúnir.

Norska ferjan Bodö átti síðan að leysa Herjólf af frá 20. nóvember. Bodö er 80 metra langt skip, tekur 330 farþega og u.þ.b. 72 bíla. Skipið hefur leyfi til siglinga í Þorlákshöfn, á svokölluðu „B“ siglingasvæði.  

„Því miður hefur undirverktaki Eimskips ekki staðið við afhendingu varahlutanna og vegna mistaka verður ekki unnt að fá varahlutina fyrr en að einhverjum viknum liðnum,“ segir í fréttatilkynningu Vegagerðarinnar.

„Frekari skýringa vegna þessara tafa er vísað til rekstraraðila Herjólfs, Eimskips sem er með Herjólf á þurrleigu og ber samkvæmt samningi ábyrgð á viðgerðum ferjunnar.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert