Vill 600 m. kr. til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir nauðsynlegt að fjölga hjúkrunarfræðingum við …
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir nauðsynlegt að fjölga hjúkrunarfræðingum við störf á heilbrigðisstofnunum landsins. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Landspítalinn fagnar skýrslu Ríkisendurskoðunar og telur hana sýna fram á þann mikla skort á hjúkrunarfræðingum sem fram undan er, ef ekki verður brugðist við hratt. Þetta kemur fram í pistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítala, sem birtur var á vef spítalans í dag.

Segist hann telja nauðsynlegt að Landspítalinn fái 600 m.kr. í fjárlögum 2018 til að bæta kjör og vinnutíma hjúkrunarfræðinga, enda sé nauðsynlegt að fjölga hjúkrunarfræðingum við störf á heilbrigðisstofnunum landsins og að fjölga námsplássum í hjúkrunarfræði við íslenska háskóla. 

Í pistli sínum vekur Páll athygli á að Landspítalinn hafi bent á að í fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar hafi verið gert ráð fyrir 3,8 milljörðum króna á næstu 5 árum til að fjölga heilbrigðisstarfsfólki á Landspítala. „Hins vegar voru það mikil vonbrigði að í framlögðu fjárlagafrumvarpi ársins 2018 var aðeins gert ráð fyrir 60 milljónum króna til þessa verkefnis,“ segir Páll. 

„Landspítali telur þurfa að tífalda þá upphæð, þannig að hún nemi að lágmarki 600 milljónum króna á árinu 2018. Ef sú upphæð fæst, mun Landspítali nýta hana til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga almennt og til að minnka vaktabyrði og bæta grunnkjör þeirra hjúkrunarfræðinga sem starfa í vaktavinnu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert