Átu ís af brjóstum og Harvard-fyrirlesari flúinn

Aldrei hafa jafnmargar konur, á heimsvísu, stigið fram í einu …
Aldrei hafa jafnmargar konur, á heimsvísu, stigið fram í einu og greint opinberlega frá kynferðislegri áreitni, sem þær hafa margar hverjar aldrei áður sagt frá. Raphli

Síðustu dagar og vikur hafa leitt í ljós að sennilega er mun frekar fréttnæmt ef kona hefur ekki orðið fyrir kynferðislegri áreitni en að hún hafi orðið það. Samfélagsmiðlar hafa varpað ljósi á að mikill meirihluti kvenna hefur lent í kynferðislegri áreitni, og ekki bara einu sinni eða tvisvar heldur oft og mörgum sinnum. Það sem konurnar sjálfar eru um leið líka að átta sig á hversu lengi þær hafa talað það niður ýmis atvik sem þær hafa orðið fyrir. Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins birtast frásagnir 14 íslenskra kvenna sem eru af ýmsum toga en allar eiga þær það sameiginlegt að vera kynferðisleg áreitni og stundum hreinlega ofbeldi.

Gulla Bjarnadóttir búðarkona.
Gulla Bjarnadóttir búðarkona. Kristinn Magnússon

Dauðskelkuð í brúðkaupi

„Það sem er svo sorglegt er að maður er svo vanur áreitni að það er búið að normalísera hana. Margar konur eru löngu hættar að kippa sér upp við það að fá óvelkomið káf og það er ekkert langt síðan ég fattaði sjálf hvað það er sorglegt,“ segir Gulla Bjarnadóttir búðarkona. 

„Svo gerðist atvik sem gekk skrefinu lengra en að vera hróp og köll og minniháttar áreiti. Þá var ég í brúðkaupi hjá vinafólki og það var liðið á kvöldið og farið að fækka í hópnum. Allir höfðu það gaman og ég var að skemmta mér með eiginmanni mínum og fullt af vinafólki en líka fólki sem ég þekkti ekki. Smám saman fer fólk að tínast úr hópnum, kveðjast og knúsast bless nema þar sem ég stend vindur maður sér upp að mér og vill kveðja mig. Ég rétti út hendurnar og ætla að faðma hann eins og maður gerir en hann veður undir pilsið hjá mér og klípur í kynfæri mín. Ég leit strax í kringum mig og sá að enginn hafði séð þetta en þetta var svo mikil árás að ég varð dauðhrædd. Það rann í gegnum huga minn hvað ég ætti að gera og hver viðbrögð mín ættu að vera og þegar ég vaknaði daginn eftir var ég með 365 hugmyndir í kollinum um hvernig ég hefði átt að bregðast við. 

Akkúrat þarna vildi ég snúa mig út úr þessu og láta kvöldið halda áfram án þess að vera með vesen, að því er mér fannst sjálfri.

Kvöldið hélt áfram en þegar við hjónin erum að fara ásamt öðrum þangað sem við gistum og allir knúsast bless stendur maðurinn þarna aftur við hliðina á mér. Ég hugsa með mér að hann fari ekki að gera þetta aftur – ég með eiginmann minn mér við hlið – en hann vill annað faðmlag.

Ég er tilbúin með höndina fyrir framan mig til að slá í hönd hans ef hann skyldi reyna eitthvað og það var einmitt það sem hann gerði.
Ég hef aldrei séð eiginmann minn svona reiðan en hann og nokkrir vinir okkar sáu þetta í þetta skiptið. Eftir á hefði ég viljað bregðast öðruvísi við, en við vorum í sveitabrúðkaupi, lögregla langt í burtu og maður hugsaði með sér að maður vildi ekki eyðileggja brúðkaupið fyrir neinum, ég vildi bara skríða upp í rúm og gleyma þessu,“ segir Gulla.

Erna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri BHM.
Erna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri BHM. Eggert Jóhannesson

Flúði virðulegan fyrirlesara frá Harvard

„Árið 2012 var ég stödd á ráðstefnu ríkissáttasemjara og aðila vinnumarkaðarins. Á ráðstefnunni var virtur fyrirlesari frá Harvard sem fjallaði um samningatækni. Í kaffihléi vék hann sér að mér og hóf spjall. Smám saman rann upp fyrir mér hverju hann var að stinga upp á,“ segir Erna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri BHM. 

„Ég fór að svitna í lófunum og hugsaði stöðugt að ég hlyti að vera að misskilja hann. Svo var nú ekki og í öllum fáránleikanum klykkti hann í lokin út með setningunni: „I’ll bring the cucumber and you’ll bring the apple.“

Erna segir að þótt hægt sé að hlæja að þessu eftir á sé staðreyndin sú að hann misbauð henni en viðbrögð hennar voru að fara heim þar sem hún gat ekki hugsað sér að sitja þarna lengur og eiga á hættu að hitta hann aftur.
„Ég man svo vel eftir því að hafa hugsað strax hvað ég hefði sjálf gert. Brosti ég of mikið til hans? Hvað gerði ég til að eiga þessa óvelkomnu athygli frá honum skilið? Ég hafði mikinn áhuga á samningatækni og bara það að sitja þarna og hafa áhuga á málefninu túlkaði hann eins og opinn tékka og að bjóða mér upp á hótelherbergi. Maður skildi hvernig konum líður sem verða fyrir svona og hvernig þessar dæmigerðu sjálfsásakanir verða til.“
Erna segir nokkuð öruggt að fyrirlesarinn frá Harvard hafi ekki verið að gera þetta í fyrsta sinn, hann sé örugglega vanur að áreita konur á ráðstefnum úti um allan heim. Þessi hegðun hans var ekki látin athugasemdalaus af þeim sem héldu ráðstefnuna og var kvartað til yfirmanna hans. 


„Ég veit að þetta atvik kemst ekki í hálfkvisti við það sem sumar konur hafa þurft að þola. Það er óþolandi að karlmenn noti yfirburðastöðu sína til þess að fá sitt fram gagnvart þeim konum sem þeir umgangast. Ég hef hins vegar fulla trú á að þessi menning breytist og hef vonandi lagt mitt af mörkum með góðu uppeldi sona minna.“

Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður og rithöfundur.
Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður og rithöfundur. Ásdís Ásgeirsdóttir

Rándýr í leit að bráð  

Mamma var orðin 76 ára þegar hún loks rauf þögnina og greindi frá þeirri misnotkun sem hún varð fyrir sem barn og jafnframt því ofbeldi sem hún varð einnig fyrir síðar. Mér fannst mikilvægt að sýna henni samkennd og stuðning og það varð niðurstaða okkar að rjúfa þögnina með útgáfu Tvísögu því slíkar hörmungar móta fórnarlömbin og skömmin, niðurlægingin, kvíðinn og andlega niðurbrotið geta skilað sér áfram kynslóð eftir kynslóð. Það hefur gert fjölskyldunni mjög gott að hafa farið í gegnum þetta ferli og ég tók þátt í Metoo til að hvetja fólk til að ýta óttanum til hliðar og taka þátt í að senda þau skilaboð að sá tími sé liðinn að fórnarlömb þegi,“ segir Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður og rithöfundur.

„Ég hef eins og flestar aðrar konur upplifað ýmiss konar áreiti. Öll kynferðisleg áreitni og ofbeldi er alvarlegt en þegar ég hugsa til baka er sumt sem stendur frekar upp úr en annað. Í augnablikinu er ég mest hugsi yfir veiðimönnunum sem ég rakst reglulega á sem unglingur. Þegar ég var 16 og 17 ára fór ég stundum á sveitaböll á Vesturlandi eins og jafnaldrar mínir á Akranesi og af og til komu á böllin hópar karlmanna sem voru í veiði í ám í nágrenninu. Mér fannst þeir drukknir, háværir, fyrirferðarmiklir og sumir mjög ágengir. Flestir gerðu eflaust ekki flugu mein og ég vil alls ekki alhæfa að þeir hafi allir hagað sér með þessum hætti. En ég lenti það oft í áreitni af hálfu þessara manna að ég hafði varann á mér. Einu sinni var ég í nokkuð fjölmennu partíi í heimahúsi með jafnöldrum og af sveitaballi í næsta nágrenni slæddist þangað hópur veiðimanna. Ég sat inni í herbergi ásamt nokkrum krökkum þegar einn af veiðimönnunum kom inn í herbergið og fór að slá um sig. Smám saman fóru krakkarnir að tínast fram en ég var aftast í hópnum og áður en ég komst út úr herberginu gekk hann fyrir mig og læsti dyrunum. Hann hrinti mér í rúmið, hélt mér niðri og fór að lýsa því hvað hann gæti gert við stelpur eins og mig. Strákar á mínum aldri kynnu ekkert og nú loks fengi ég að upplifa almennilegt kynlíf. Ég varð dauðskelkuð, barðist gegn honum, komst loks aftur að dyrunum sem ég tók úr lás og komst fram þar sem ég var í svo miklu áfalli að ég kom ekki upp orði. Gat engum sagt hvað gerst hafði jafnvel þótt veiðimaðurinn kæmi ekki fram vilja sínum,“ segir Ásdís.

„Þegar Metoo fór af stað rifjuðust þessar minningar upp. Minningar um veiðimennina að sunnan sem ég upplifði eins og rándýr í leit að bráð. Við, þessar ómerkilegu dreifbýlisdruslur, áttum að vera þakklátar fyrir athyglina í það augnablik sem við fengum hana, áður en þeir skutust aftur í bæinn á fínu bílunum til eiginkvennanna. Þetta voru mennirnir með valdið, eins og Weinstein og allir hinir sem hafa misnotað það öldum saman, og komist upp með það í skjóli þagnarinnar, sem nú þarf að rjúfa.“

Steinunn Birna Ragnarsdóttir, stjórnandi Íslensku óperunnar.
Steinunn Birna Ragnarsdóttir, stjórnandi Íslensku óperunnar.

Skömmin er svo stór og lamandi  

„Ég veit ekki alveg hvað var verst; barnaperrinn í leikhúsinu þar sem ég kom ellefu ára og króaði mig af í hvert sinn sem ég gekk framhjá með óviðeigandi hegðun sem skildi eftir stóran hnút í ungri sál eða skólabróðirinn sem bauð mér út og stærði sig af „afrekum“ sínum daginn eftir. Honum láðist að taka fram að hann hafði ekki mitt samþykki og ég ásakaði mig lengi fyrir þá yfirsjón að hafa boðið honum inn,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir, stjórnandi Íslensku óperunnar. „Eða kannski var það sjúklingurinn á Vífilsstöðum þegar ég var unglingur sem lokkaði mig inn í íbúðina sína og ætlaði að koma fram vilja sínum. Í það skiptið slapp ég með skrekkinn, en sagði engum frá af því ég hafði jú þegið boðið og kallað yfir mig þessa ógn. Eða var það kennarinn sem notaði óviðeigandi handayfirlagningar til þess að kenna mér hvernig ég ætti að bera mig að við hljóðfærið? Kannski var það yfirmaðurinn sem sagðist geta gert ýmislegt fyrir mig sem enginn annar gæti gert betur. Ég veit ekki hvað var verst, en það er því miður af alltof mörgu að taka sem enginn ætti nokkru sinni að þurfa að upplifa. Hvorki barn, kona né maður,“ segir hún.

„Ég sagði frá þessu núna í fyrsta sinn og ástæða mín fyrir að deila þessu var bæði til að upplifa léttinn og að leggja mitt af mörkum til þess að mín barnabörn þurfi ekki að bögglast með svona upplifanir. Og helst náttúrlega aldrei að þurfa að upplifa þær. Við þurfum samfélag þar sem þessi þöggun er ekki nánast óhjákvæmilegt ástand. Þetta ofbeldi sem konur verða stöðugt fyrir kristallast í fjöldanum sem kemur fram núna. Auðvitað eru þetta viðkvæm og persónuleg mál og í eðli sínu sársaukafull og mér finnst í raun hræðilega sorglegt að þetta skuli vera til, eins og þessi játningaalda sem gengur núna yfir víða um lönd ber með sér, en að sama skapi er það mikil heilun að geta deilt þessari reynslu,“ segir Steinunn.

„Því miður er þessi misbeiting valds svo algeng og er notuð sem skiptimynt, eins og þessar leikkonur í Hollywood eru að upplifa, að það sé næstum því til þess ætlast að sætta sig við svona ofbeldi. Svoleiðis samfélag er algerlega óviðunandi. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að þetta haldi áfram að vera lenska, eins og það virðist vera,“ segir hún og bætir við að þessi facebookfærsla hafi verið stórt skref hjá sér.

„Ég hafði aldrei rætt neitt af þessu neins staðar. Það fannst mér líka algjörlega magnað. Af því að sjálfsásökunin og skömmin yfir þessu er svo stór og lamandi. Það þekkja allir sem ganga í gegnum svona, að finna sökina hjá sér, að hugsa: Þetta hlýtur að hafa verið mér að kenna. Og það er ástæðan fyrir því að margar konur tala ekki um þetta, því þeim er sjálfum kennt um. Sú hugsun verður að hverfa úr okkar gildismati; það er aldrei manneskjunni að kenna sem upplifir misbeitingu valds og niðurlægingu af þessu tagi.“

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskólans.
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskólans. Kristinn Ingvarsson

Að umbylta viðhorfum  

Ég hefði alveg getað skrifað status um eðli þess áreitis sem ég hef orðið fyrir en það bætir engu við. Sögur kvenna eru allar af sama meiði, þótt það sé stigsmunur á því hvað konur hafa upplifað erfiða hluti. Fyrir þrjátíu árum spurði ég í fyrsta sinn í hópi kvenna hvort þær hefðu upplifað áreiti og það höfðu þær allar. Það var bara lítið talað um það,“ segir Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskólans.

 „Ástæðan fyrir því að ég vildi vera með í metoo núna er þessi víðtæka samstaða sem ég hef ekki fundið áður og gæti orðið hreyfiafl til að umbylta viðhorfum samfélagsins alls, ekki síst karla. Þegar ég var að alast upp þekktu allir til áreitis; fjölskylda, vinkonur, skólafélagar. En það var hreinlega látið viðgangast, því það vildi enginn afhjúpa gerendur. Sú meðvirkni virðist vera að líða undir lok og því er loksins lag að vekja alla til umhugsunar um eigin hlutdeild í að viðhalda slíku framferði á þann veg að kynferðislegt áreiti verði ekki umborið lengur,“ segir Fríða. 

„Ég hef sem betur fer ekki orðið fyrir neinum sálarskaða því það sem ég hef upplifað er hversdagslegt miðað við reynslu margra kvenna. Það er samt umhugsunarefni að hafa t.d. oftar en einu sinni orðið fyrir áreiti af hálfu kennara. Ekki síst í því ljósi að mig grunar að skólastjórnendur hafi vitað af hegðun viðkomandi manna. Slík reynsla dregur úr konum hugrekkið og verður til þess að þær finna til smæðar sinnar frekar en styrks í margvíslegum aðstæðum,“ segir Fríða.  

„Bæði kynin þurfa að taka sig á, því meðvirknin á ekki bara við um karla, heldur alla þá sem láta það óáreitt ef einhver verður fyrir áreiti. Mér sýnast mörkin í dag vera að verða miklu skarpari, þau eru ekki eins óræð og þegar ég var ung. Þá var það t.d. iðulega álitinn skortur á húmor í konum ef þær sættu sig ekki við niðurlægjandi athugasemdir eða hegðun,“ segir hún og nefnir að viðnám við áreitiskúltúr þýði auðvitað ekki að loka eigi fyrir gullhamra eða heilbrigð samskipti kynjanna. 

„Þetta snýst ekkert um að þú megir ekki vera ástleitinn ef þú ert ástfanginn, það er bara allt annar hlutur. Það vill enginn losna við daður úr lífinu, það er fallegt og skemmtilegt og hluti af heilbrigðri kynhegðun. En það að alltaf sé fyrst og fremst horft á konur vegna líkamlegs atgervis en ekki vitsmunalegra eiginleika er náttúrlega óþolandi og mjög lítilsvirðandi. Slíkt er beinlínis afleiðing grófrar markaðsvæðingar kvenlíkamans, sem mál er að linni. Ég var að æsa mig á Facebook um daginn þegar allir fjölmiðlar voru að fjalla um Hugh Hefner eftir lát hans. Mér fannst það óþarfi. Hann eignaði sér kynlífsbyltinguna og allt frelsið sem henni fylgdi með óréttmætum hætti. Það var ekki hann sem frelsaði ungt fólk úr viðjum hefða og forpokaðra viðhorfa. Frelsið kom með pillunni, því með henni fengu konur loks vald yfir eigin líkama og þurftu ekki að óttast fordæmingu fyrir afleiðingar sinnar kynhegðunar. Ef eitthvað, þá beinlínis hamlaði Hefner kynfrelsi kvenna með því að viðhalda fordómafullum staðalímyndum karllægs samfélags um konur í þrjátíu til fjörutíu ár.“

Ása Ninna Pétursdóttir hönnuður.
Ása Ninna Pétursdóttir hönnuður.

Pössuðum okkur að roðna ekki

„Ég vann mikið í þjónustustörfum þegar ég var yngri og það sem sló mig var að þar var næstum því hlegið að kynferðislegri áreitni,“ segir Ása Ninna Pétursdóttir hönnuður og telur líklegt að það sé meira en minna líklegt að flestar stelpur sem hafi unnið í þjónustustörfum hafi orðið fyrir áreitni.
„Ég vann eins og svo margar stelpur sem þjónn þegar ég var 17 ára, árið 1997. Ég vann á stað þar sem við þurftum að klæðast stuttum hvítum þröngum kjólum, berleggja. Þessi staður var mjög vinsæll á þessum tíma og það þótti frekar flott að fá vinnu þarna.

Eitt sinn sat strákahópur við borð og allir pöntuðu bjór. Ég kom með stóran bakka með allavega 10 bjórum. Hendur mínar voru á bakkanum. Strákurinn sem sat næst mér sagði: Djöfull ertu með flott læri, má ég strjúka? 

Ég náði ekki að svara áður en hann renndi hendinni upp eftir lærinu, inn undir nærbuxurnar og alla leið upp. Ég fraus, stóð með bakkann og náði að færa mig svo fingur hans runnu út úr mér. Ég setti bakkann á borðið og hljóp inn á klósett,“ segir Ása Ninna og segist strax hafa byrjað með sjálfsásakanir. Var hún svona drusluleg? 


„Ég þorði ekki að segja yfirmönnum mínum frá, því ég skammaðist mín, var niðurlægð.“
Steggjanir voru vinsælar á þessum stað og kom það í hlut þjónustustúlknanna, sem allar voru undir tvítugu, að sjá um að gleðja steggina með því að teyma þá upp á borð og dansa.

„Aðalatriðið var svo þegar ís, sem var í laginu eins og kvenkyns kynfæri, var komið fyrir á einhverri okkar og steggurinn átti að borða ísinn af okkur.

Ég man eftir skipti þar sem einn steggurinn gekk svo langt að hann sneri sér að mér, reif hlýrabolinn minn niður og beit í brjóstið á mér. Þarna stóð ég uppi á borði, 17 ára, með brjóstið úti á vinnustaðnum mínum, meðan karlmennirnir í steggjapartíinu klöppuðu og hlógu.

Ég kláraði vaktina mína og fór heim með bitfar á brjóstinu eftir mann sem var að fara að giftast ástinni sinni og aftur fannst mér skömmin mín.“ 
Ása Ninna segir að andrúmsloftið hafi verið þannig að þetta væri einfaldlega hluti af starfinu, að geta tekið við svona.

„Stundum var ég svo ánægð með mig ef ég gat svarað fyrir mig og ekki roðnað. Maður varð einhvern veginn að taka þátt í leiknum, vera bara töffari á móti og láta ekki á neinu bera. Að halda kúlinu og koma með svör sem settu strákana úr jafnvægi voru einhvern veginn einu viðbrögðin sem voru í boði.“

Kamilla Einarsdóttir bókavörður.
Kamilla Einarsdóttir bókavörður. Eggert Jóhannesson

Helst ekki í sund frá 8 ára aldri

„Fyrsta skiptið var þegar ég var átta ára. Þá byrjaði gamall kall að elta mig, yngri systur mína og vinkonu þegar við vorum í sundi. Hann áreitti okkur með ógeðslegu orðbragði og káfi. Ég man eftir að hafa orðið alveg logandi hrædd. Við vissum ekkert hvað við áttum að gera. Hann sneri sér svo að öðrum stálpuðum unglingsstúlkum og fullt af fólki varð vitni að því en enginn gerði neitt,“ segir Kamilla Einarsdóttir bókavörður.

„Við reyndum seinna að grínast með þetta okkar á milli en eftir þetta hefur mér aldrei fundist gaman að fara í sund og forðast það eins og heitan eldinn. Fæ bara klígju og hjartslátt ef ég finn lyktina af klór.“

Í hinni miklu sundmenningu Íslands hefur Kamilla oft lent í því að vera beðin um að koma í sund.

„Ég hef ekki viljað tala um þetta svo að ég hef í staðinn komið mér upp aragrúa af tölulegum staðreyndum og sögum um fólk sem hefur farið í almenningssundlaugar í Mumbai og Toronto og hlotið af því skelfilegar heilaétandi amöbusýkingar.

Þegar ég var ólétt að yngstu dóttur minni sagði sjúkraþjálfari við mig að ég yrði að gera ákveðnar líkamsæfingar í vatni. Þá þurfti ég að taka þáverandi kærasta minn með mér í sund þrisvar í viku því ég var svo hrædd. Til allrar hamingju var hann alveg til í að stunda reglulegar líkamsæfingar fyrir óléttar konur með grindargliðnun. Enda held ég að hann sé enn í dag með mjög sterkan grindarbotn. Ég sór þess síðan dýran eið að ganga ekki með fleiri börn nema ég myndi óvænt eignast einkasundlaug.“ 

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.

Þeir eru fleiri staðirnir sem Kamilla forðast vegna karlmanna sem hafa gert hana hrædda þar. 

„Ég hef alltaf vitað að flestar konur sem ég þekki eiga svipaðar sögur, en mér brá samt í vikunni þegar ég sá hvað við vorum rosalega margar. Svo varð ég bálreið yfir því að svona karlar hefðu tekið af mér og öðrum svona mörg svæði og þá í leiðinni alls konar lífsgæði. Þegar nýja Sundhöllin verður opnuð langar mig að nota kraftinn úr reiðinni til að endurheimta sundferðir, ef svo má segja. Ég mæti kannski fyrst bara á tímum sem fáir eru og í riddarabrynju með alvæpni.

Styrkurinn sem felst í því í að við séum svona margar sem þorum núna að tala um þetta og viljum stoppa þetta hlýtur að geta orðið til góðs. Svona er ekki og má aldrei vera í lagi.“ 

Frásagnir allra kvennanna 14 birtast í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert