Erum á Íslandi, ekki banana­lýðveldi

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, nýr formaður ÖBÍ.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, nýr formaður ÖBÍ. Ljósmynd/ÖBÍ

Nýr formaður Öryrkjabandalags Íslands, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, segir nýtt starf leggjast vel í sig. „Ég er bara bjartsýn og full af baráttuhug. Nú langar mig bara að fara að beita mér fyrir þann þjóðfélagshóp sem ég tilheyri,“ segir Þuríður Harpa í samtali við mbl.is.

Hún var kjörin formaður með 68 atkvæðum gegn 58 á aðalfundi ÖBÍ í morgun. Mótframbjóðandi hennar var Ein­ar Þór Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri HIV Ísland.

Þuríður Harpa segist ætla að leggja megináherslu á mannréttindamál í störfum sínum, svo sem lögfestingu NPA og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, auk þess að berjast fyrir bættum kjörum öryrkja.

Stjórnmálamenn skreyti sig með tali um kjör öryrkja

Hún segist hafa saknað umræðu um málefni öryrkja í yfirstandandi kosningabaráttu.

„Mér finnst hún ekki hafa verið mjög áberandi. Menn skreyta sig alltaf með þessu, en þegar það kemur að því að efna loforðin verður minna um efndir. Ég ætlast náttúrulega bara til þess að alþingismenn standi við það sem þeir segja og lofa.

Frá aðalfundi Öryrkjabandalagsins í morgun.
Frá aðalfundi Öryrkjabandalagsins í morgun. Ljósmynd/ÖBÍ

Það hefur vantað svolítið upp á það og ég vil brýna fyrir alþingismönnum núna, sem ætla að fara inn í næstu stjórn, að efna þessi loforð – lögfesta NPA og sáttmála Sameinuðu þjóðanna og gera það bara fyrir áramót.“

Mannréttindamál eigi að vera í forgangi

Þuríður segir íslensk stjórnvöld ekki eiga að tvínóna við mannréttindamál.

„Þau eiga að vera í forgangi hjá stjórnvöldum. Við erum á Íslandi, ekki einhverju bananalýðveldi. Menn hafa sýnt þessu mikinn skilning og því þykir mér að það hljóti að vera eðlilegast að þeir stígi fram og klári þetta bara, þessi nýja ríkisstjórn sem verður mynduð.“ segir Þuríður Harpa.

Formaðurinn er Hornfirðingur að upplagi, en hefur verið búsett í Skagafirði síðastliðin þrjátíu ár. Það mun breytast á næstunni, enda krefst nýja starfið þess að Þuríður Harpa sé búsett á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég flyt til höfuðborgarinnar, enda sinnir maður þessu starfi ekki með annarri hendinni, það er alveg ljóst. Þetta er stórt og mikið starf og mikið verkefni, þannig að ég flyt hingað bara mjög fljótlega,“ segir Þuríður.

„Það leggst bara vel í mig. Ég hef alveg búið hérna áður og það verður bara gaman að rifja það upp, að vera með búsetu á höfuðborgarsvæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert