„Ég greiddi frelsið með æskunni“

Faten Mahdi Al-Hussaini, 22 ára þáttastjórnandi NRK í Noregi. Sú …
Faten Mahdi Al-Hussaini, 22 ára þáttastjórnandi NRK í Noregi. Sú fyrsta sem fram kemur með höfuðslæðu í sjónvarpi. Faten er óttalaus og segir það sem henni býr í brjósti. Framundan eru nýjir þættir og leikrit. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Kannski hef ég misst svo mikið að ég er ekki hrædd við að missa lífið. Ég er 22 ára og þetta eru stór orð fyrir unga stúlku,“ segir hin norsk-íraska Faten Mahdi Al-Hussaini, aðgerðasinni og talsmaður gegn hatursáróðri sem stofanði samtökin JustUnity í Noregi, sem vinna gegn öfgum og ofstæki. Hún er talskona NRK, norska ríkisútvarpsins, gegn hatursáróðri.

Faten var tekin tali á alþjóðlegri friðarráðstefnu Höfða friðarseturs, sem fram fór í Veröld, húsi Vigdísar. Faten er fyrsti þáttastjórnandi hjá NRK sem ber höfuðslæðu, eða híjab, í sjónvarpi. „Ég var ekki ráðin af því að ég ber höfuðslæðu, híjab. NRK líkaði hvað ég var frökk og hæfileikrík í starfið. Það er allt og sumt.“

Faten segir að hún sé ekki höfuðslæðan, heldur góð stelpa, vel gefin, ljóshærð, skemmtileg og sterk.

NRK spáði ekki í því að ég bæri híjab fyrr en sex þúsund kvartanir bárust áður en þátturinn fór í loftið. Starfið hjá NRK er það fyrsta sem ég fékk sem ég sjálf og berandi híjab. Áður var eina vinnan bak við tölvu í símasölu undir nafninu Viktoría. Það var erfitt og Noregur á langt í land.“

Hvorki nógu norsk né írösk

Faten er er fædd í Írak hún flutti ung með foreldrum sínum til Noregs.

„Ég fell hvergi inn í samfélagið. Ég er ekki nógu norsk fyrir Norðmenn af því að ég ber híjab. Ég er heldur ekki nógu írösk fyrir Íraka af því að ég mála mig, heilsa karlmönnum með handabandi og á kærasta. Ég er norsk þegar ég tala um það sem Norðmenn vilja og þá eru þeir stoltir af mér. Ef ég tala um annað er ég ekki norsk og geng með híjab.“

Ellefu ára gömul krafðist Faten þess að læra arabísku betur og bjó þá í eitt ár hjá ættingjum í Írak. Henni hafði verið strítt í samfélagi múslima fyrir slaka arabísku. Í Írak var Faten barin, pyntuð og lögð í einelti eins og margir aðrir í skólanum. Hún varð vitni að mannránum, morðum og sprengingum. Faten varð á þessum tíma árásargjörn án ofbeldis og reið alla daga. Hún vissi að hún yrði að finna leið til þess að tjá sig þrátt fyrir að fólki líkaði ekki það sem hún segði. Faten sneri aftur til Noregs þakklát.

„Ég var þakklát fyrir að geta farið út og vita að ég kæmist heim aftur. Þannig var það ekki í Írak.“

„Hætta á að ég verði drepin“

Faten er viss um að hún hefði þagað hefði hún búið áfram í Írak.

„Það er hætta á því að ég verði drepin í Noregi. Það væri eflaust búið að því ef vilji hefði verið til þess. Ég og fjölskylda mín höfum þurftlögregluvernd. Ég er þögul um það sem gerðist í Írak og bíð eftir tækifæri til þess að fara þangað aftur. Ég ætla ekki að þegja alla tíð. Ég á fjölskyldu í Írak og þar er mitt annað land. Mig langar að leggja mitt af mörkum í uppbygginu Íraks. Það getur verið hættulegt að tala en það er hættulegra að lifa í þögninni og þar er ég núna varðandi Írak.“

Faten á fimm yngri systur, sem allar eru fæddar í Noregi. Hún segir þær frjálsar og velja sínar eigin leiðir.

„Við erum mjög ólíkar en ég er fyrirmynd þeirra. Ég er elst, tók slaginn og gerði þeim auðveldara að alast upp á heimili okkar. Þær þakka það.“

„Ég greiddi frelsið með æsku minni. Ég gekk í skóla þar sem hvítt fólk var 90% nemenda og ég oft sú eina með híjab. Það var erfitt og ég var lögð í einelti. Mér var bara einu sinni boðið í afmæli. Ég gerði allt til þess hljóta samþykki og falla inn í hópinn en það dugði ekki. Stúlkurnar héldu að híjabið takmarkaði mig en það gerir það ekki, hefur aldrei gert og mun aldrei gera,“ segir Faten.

Hún gerði sér ekki grein fyrir hatrinu á höfuðslæðum fyrr en hún sá athugasemdir og hatrið á Fésbókinni.

„Lausnin er að ræða það af hverjufólki finnst híjab vera tákn um kúgun og hatrið sem beinist að íslam og innflytjendum. Hver getur skilgreint híjab fyrir stúlku? Ekki sú sem ekki ber híjab, heldur sú sem ber það. Ef þess er krafist að stúlka beri híjab er það kúgun. Fyrir aðrar getur það verið sjálfsmynd, trú, menning eða jafnvel tíska,“ segir Faten og bendir á að hún beri híjab sem trúartákn. Faten beinir orðum til blaðamanns:

„Þú þekkir mig ekki, hvernig átt þú að skilgreina hver ég er? Ég er sú eina sem get skilgreint mig sem kristna, trúleysingja, múslima eða hvað annað. Ég gæti gengið um með híjab trúlaus og litið á það sem tískufyrirbrigði. Sama gildir um krossinn.“

Faten segist eiga marga stuðningsmenn og það séu ekki allir Norðmenn sem hati höfuðslæðu. Þeir sem haldi uppi ljótri umræðu á kommentakerfinu séu að gera hættulega hluti. Í tíð Obama Bandaríkjaforseta voru ekki færri kynþáttahatarar.

„Obama leyfði þegnunum ekki að vera kynþáttahatarar. Það eru ekki fleiri kynþáttahatarar í tíð Trumps, en hann leyfir kynþáttahatur.“

Spurðu af hverju berðu híjab?

Faten sem hefur lausn á fordómum.

„Fólk á að tala við hvert annað en ekki um hvert annað. Ef þú hefur á móti híjab, farðu þá og spurðu þá sem ber það af hverju hún geri það. Verið sammála um að það sé í lagi að vera ósammála. Það er heilbrigt að fólk hugsi á mismunandi hátt.“

Fatan er nokkuð niðri fyrir og segir: „Virtu mig og taktu mér eins og ég er. Ekki reyna að breyta mér. Ekki reyna að taka af mér híjabið og segja mér að taka það af mér til þess að verða samþykkt. Ég er á móti níkab sem er slæða sem hylur allt nema augun því mér finnst það ekki passa. Ég er á móti því að setja lög sem banna konum að vera í níkab. Í Noregi bera innan við 100 konur níkab. Látið þær í friði. Ef konur í Noregi verða þvingaðar til þess að taka af sér níkabið verð ég sú fyrsta sem fer í níkab til að mótmæla þeim lögum.“

Faten segir að konur sem beri níkab séu ekki hryðjuverkarmenn eða öfgamenn. Að bera níkab sé íhaldssamt og það sé ekkert að því að vera íhaldssamur.

„Það er ekki það sem þú klæðist eða berð á höfðinu sem gerir þig að öfgasinna heldur það sem gerist í höfðinu á þér. Fólk verður að þekkja muninn á öfgum og íhaldi.Ég er íhaldssamur múslími með ákveðnar reglur gagnvart sjálfri mér en ég geri ekki kröfur á aðra. Fjölmiðlar draga upp þá mynd að múslimar séu hryðjuverkamenn en hvítur fjöldamorðingi í Vegas sé andlega veikur.“

Fannst foreldrarnir skrímsli

„Ég vil ekki tala um þá hluti sem pabbi var þvingaður til að gera mér. En á þeim tíma fannst mér hann vera skrímsli og djöfull. Hann skildi mig ekki og snerist gegn mér. Af því að hann elskaði mig hélt hann að hann væri að gera það eina rétta. Hann var undir mikilli pressu frá samfélaginu og taldi þann gjörning betri en heiðursmorð,“ segir Faten og bætir við með nokkurri hlýju:

„Faðir minn er ein besta manneskja sem ég þekki og ein af fyrirmyndum mínum sem ég elska. Hann er mjög stoltur af mér í dag en það mátti hann ekki fyrir ári síðan.

Ekki líta á þessa menn sem skrímsli, það verður að taka tillit til þess hvers vegna þeir gera hlutina. Faðir minn stendur með mér núna því samfélagið mitt stendur með mér og gerir það eins lengi og ég tala í þágu þess. Ef ég hætti því veit ég að samfélagið snýst gegn mér aftur.“

Faten segir móður sína sterka og ákveðna konu en mjög íhaldssama. „Hún er hrædd um að ég nái ekki þrítugsaldri. Ég verði drepin áður. Mér er sama um afleiðingarnar sem orð mína hafa og ef einhver vill skjóta mig þá gerir hann það. Ég er óttalaus og mamma segir það sjúkdóm.“

Faten segir að þegar fjölskyldan hafi sett pressu á hana hafi hún fengið sömu tilfinningu og þegar Norðmenn vilji taka af henni híjabið. Henni hafi fundist þau skrímsli.

Uppgjöf ekki valmöguleiki

„Ég tipla ekki á tánum. Ég veit að ég þarf að gjalda fyrir það og geri það með ánægju. Kannski fæ ég styrk úr öllu hatrinu sem er beint að mér. En þegar ég er að gefast upp hef ég fjölskylduna sem uppörvar mig.“

Erfiðu umræðuna þarf að taka. Setjast niður og ræða málin og jafnvel stíga á einhverjar að mati Faten.

„Ég hef sest niður með fólki sem raunverulega hataði mig og vildi mig feiga. Við áttum gott samtal.“

Fordómar stafa af fáfræði, segir Faten. Það að konur keyri ekki í Sádi-Arabíu hefur ekkert með trúarbrögð að gera það er menningarlegt.

Við Íslendinga vill Faten segja: „Hættið fordómum, í guðanna bænum. Komið fram við flóttamenn á réttlátan og hreinskiptinn hátt. Segið hvaða reglur gilda í landinu, kennið þeim málið og útvegið vinnu. Ef þetta er ekki gert verða vandamál með flóttamenn eftir tíu ár og börnin þeirra líka. Ef þú kemur fram með hræðslu gagnvart fólki færðu hræðslu til baka. Ef þú hatar fólk verndar fólk sig með því að hata.“

Yngri kynslóðin hefur minni fordóma er skapandi og vanmetin. Stjórnmálamenn eiga að hætta að tala um hana. Það á að tala við yngri kynslóðina það er hún sem tekur við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert