„Boltinn er hjá Air Berlin“

Vél Air Belin hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá því …
Vél Air Belin hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá því á fimmtudag. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Staðan er óbreytt, vélin er enn þá á Keflavíkurflugvelli og við bíðum eftir að heyra frá Air Berlin,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is.

Isa­via kyrr­setti skömmu fyr­ir miðnætti á fimmtudag flug­vél Air Berl­in á Kefla­vík­ur­flug­velli vegna not­enda­gjalda sem eru í van­skil­um og eru til­kom­in vegna greiðslu­stöðvun­ar Air Berl­in.

Frétt mbl.is: Isavia kyrrsetti flugvél Air Berlin

„Við vorum í samskiptum við þau á föstudag, en svo bíðum við eftir frekari upplýsingum frá þeim,“ segir Guðni.

Samkvæmt íslenskum loftferðalögum hefur fyrirtækið heim­ild­ir til þess að kyrr­setja loft­för svo tryggja megi greiðslu van­gold­inna gjalda. Um er að ræða van­skil á notendagjöld­um sem komu til áður en Air Berl­in fór í greiðslu­stöðvun.

Farþegar eiga að hafa greitt gjöldin

Notendagjöldin eru samkvæmt gjaldskrá fyrir Keflavíkuflugvöll og skiptast í lendingargjald, stæðisgjald, brottfarargjald, flugverndargjald, flugstöðvargjald og PRM-gjald (þjónusta við fatlaða/hreyfihamlaða).

Að sögn Guðna eiga farþegar Air Berlin nú þegar að hafa greitt þessi gjöld. „Flugfélög eru yfirleitt með þetta sundurliðað inni í flugmiðanum undir önnur gjöld þannig að í raun á flugfélagið að vera búið að rukka farþega um þetta.“

Guðni sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að ekki væri unnt að gefa upp hversu háar upphæðir Air Berlin skuldar. Sú afstaða hefur ekki breyst. „Almennt viljum við ekki gefa upp viðskiptastöðu viðskiptavina okkar.“ Ljóst er þó að um talsverðar upphæðir er að ræða. „Það væri óábyrgt af okkur að nota ekki þær heimildir sem við höfum til að fá þetta til baka,“ segir Guðni.

Frétt mbl.is: „Þetta eru umtalsverðar upphæðir“

Ekki er vitað til þess að fleiri vélar frá Air Berlin hafi verið kyrrsettar á öðrum flugvöllum. „Ég hef ekki heyrt af neinum sem hafa gert það,“ segir Guðni.

Kyrrsetning heimil þar til greiðsla hefur borist

Spurður um næstu skref og hversu lengi er hægt að kyrrsetja vél Air Berlin á Keflavíkurflugvelli vísar Guðni í loftferðalög. Samkvæmt 136. grein loftferðalaga er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.

„Það er í rauninni bara þar til greiðsla er komin sem við getum haldið flugvélinni. Boltinn er hjá Air Berlin,“ segir Guðni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert