Helmingur fyrirtækja stundar nýsköpun

Helmingur fyrirtækja á Íslandi með tíu starfsmenn eða fleiri leggja …
Helmingur fyrirtækja á Íslandi með tíu starfsmenn eða fleiri leggja stund á einhvers konar nýsköpun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Helmingur fyrirtækja á Íslandi, sem eru með 10 starfsmenn eða fleiri, leggur stund á nýsköpun. Þetta er niðurstaða mælinga Hagstofunnar sem nær til áranna 2014-2016, en með nýsköpun er þar vísað til þess að fyrirtækin setji nýjar vörur eða þjónustu á markað, eða innleiði nýja verkferla.

Er þetta er svipuð niðurstaða og í fyrstu mælingu Hagstofunnar sem gerð var fyrir árin 2012–2014 að því er fram kemur í frétt á vef Hagstofunnar.

Þriðjungur fyrirtækja setti nýja vöru eða þjónustu á markað, eða endurbætti eldri vöru eða þjónustu. Ekki er þó endilega um nýjung  á markaði að ræða, heldur nýjung hjá fyrirtækinu sjálfu. 25% fyrirtækja settu þó á markað vörur eða þjónustu sem töldust til nýjunga á markaði.

Þá innleiddi þriðjungur fyrirtækja nýja verkferla á tímabilinu.

Hjá 31% fyrirtækja var einhver nýsköpunarstarfsemi í gangi, sem leiddi þó ekki til þess að vörur eða þjónusta voru settar á markað eða verkferlar innleiddir á tímabilinu.

Auk nýsköpunar vöru, þjónustu og verkferla gátu fyrirtæki hafa innleitt nýtt starfskipulag eða nýjungar í markaðssetningu.

31% fyrirtækja innleiddu þannig nýtt starfskipulag á tímabilinu og 27% innleiddu nýjungar í markaðssetningu. Sé þess konar nýsköpun talin til nýsköpunar voru 55% fyrirtækja virk í nýsköpun á tímabilinu í stað 50%. Á árunum 2012-2014 var hlutfallið 59%,þar sem nýsköpun skipulags og markaðssetningar var algengari þá að því er segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert